Danski lyfja­risinn Novo Nor­disk, sem leiddi um tíma byltingu í lyfja­með­ferð við of­fitu, hefur misst yfir­burðastöðu sína á markaði.

Bandaríski sam­keppnisaðilinn Eli Lilly hefur tekið for­skot á danska félagið með öflugri lyfjum, betri að­fangastýringu og árangurs­ríkari tengingu við neyt­endur, sam­kvæmt Financial Times.

Markaðsvirði Novo féll um meira en 60 milljarða evra í gær eftir að félagið sendi frá sér neikvæða af­komu­viðvörun.

Skömmu síðar greindi félagið frá því að Maziar Mike Doustdar myndi taka við for­stjórastöðunni en Lars Fruerga­ard Jørgen­sen lét af störfum um miðjan mánuð.

Novo Nor­disk, sem varð leiðandi á markaði fyrir þyngdar­stjórnunar­lyf með inn­leiðingu Ozempic árið 2017, hefur síðan mátt þola vaxandi sam­keppni og vaxandi efa­semdir fjár­festa.

Eins og staðan er í dag benda nýjustu rannsóknir til þess að þyngdar­stjórnunar­lyf bandaríska lyfja­fyrir­tækisins Eli Lilly, Moun­jaro og Zep­bound, leiði að jafnaði til meira þyngdar­taps og valdi færri auka­verkunum.

Í júlí fór fjöldi viku­legra lyf­seðla fyrir Moun­jaro yfir 622.000, sem er meira en fyrir Ozempic.

„Lilly var ein­fald­lega fljótari og áræðnari,“ segir fjár­festinga­stjóri hjá Sti­fel í sam­tali við Financial Times. „Þeir eru á tvöföldum hraða og Novo nær ekki að halda í við þá.“

Á neytendamarkaði

Þegar eftir­spurn eftir þyngdar­stjórnunar­lyfjum jókst hratt á skömmum tíma kom snemma í ljós að Novo var illa undir­búið til að mæta eftir­spurninni.

Fyrir­tækið byggði áætlanir sínar á eftir­spurn eftir eldra lyfi sínu Saxenda, sem hafði minni áhrif á líkams­þyngd. Félagið náði því ekki að anna eftir­spurn eftir Ozempic og síðar Wegovy.

Þetta leiddi til þess að sjúklingar og læknar snéru sér að lyfjum Eli Lilly eða ódýrari eftir­líkingum. Sjúklingar snéru síðan ekki til baka þegar fram­leiðslu­geta Novo Nor­disk jókst.

Í stað þess að ein­blína á að endur­heimta markaðs­hlut­deild í Bandaríkjunum fór Novo að hefja sölu á fleiri mörkuðum.

„Félagið hélt sig við hefðbundna lækna­miðaða nálgun og missti sjónar á því að þetta var orðinn neyt­enda­markaður þar sem áhrifa­valdar og sam­félags­miðlar skipta miklu,“ segir sér­fræðingur sem þekkir til innan fyrir­tækisins við FT.

Á sama tíma og Novo var að hugsa eins og hefðbundið lyfja­fyrir­tæki ákvað Eli Lilly að byrja að selja lyf sín beint til neyt­enda.

Í fyrra opnaði lyfja­fyrir­tækið LillyDirect sem bauð lyfin á lægra verði beint til neyt­enda.

Novo svaraði ekki fyrr en í mars 2025 með Novo­Care. Þá hafði Lilly þegar tryggt sér for­skot í beinni sölu til neyt­enda.

Fjár­festar beina nú sjónum að næstu kynslóð lyfja. Novo hefur veðjað á sprautu­lyfið Ca­griSema, sem átti að leiða til 25% þyngdar­taps.

Þegar niður­stöður sýndu meðal­tal upp á 23% brugðust markaðir harka­lega við og féll hlutabréfaverð félagsins.

Til saman­burðar skilar Wegovy-lyf Novo Nor­disk 16% þyngdar­tapi en Moun­jaro-lyf Eli Lilly skilar 21% þyngdar­tapi.

Novo hefur einnig sótt um markaðs­leyfi á lyfi í töflu­formi sem inni­heldur semagluti­de, sem er virka efnið í Ozempic.

Það má þó ekki taka lyfið í töflu­formi með mat, drykk eða öðrum lyfjum, sem gæti dregið úr notkun.

Eli Lilly vinnur einnig að því að koma út þyngdar­stjórnunar­lyfi í töflu­formi sem gæti komið á markað á næsta ári.

Sam­kvæmt greiningu Financial Times hefur Novo Nor­disk fram til þessa byggt vöxt sinn á því að vera hefðbundið lyfja­fyrir­tæki sem stundar vísinda­legar rannsóknir.

Markaðurinn með þyngdar­stjórnunar­lyf hefur þó þróast meira sem neyt­enda­markaður og skipta hrað­virkar dreifi­leiðir og sýni­leiki m.a. á netinu meira máli en áður.

Eftir­spurn eftir lyfjum beggja lyfja­fyrir­tækja er þó enn mjög mikil og markaðurinn enn í mótun.

Lyfja­fyrir­tækin Roche, Am­gen og AstraZene­ca eru þó á leið inn á markaðinn með eigin lyf en eftir­spurnin er langt um­fram fram­boð í mörgum löndum.

Nýr for­stjóri Novo Nor­disk, Doustdar, sagði í kjölfar ráðningar sinnar að hann væri ekki sáttur með stöðuna:

„Mér líkar þetta ekki, hvorki sem starfs­maður, sem verðandi for­stjóri né sem hlut­hafi. En það eru viðbrögðin sem skipta máli, ekki áföllin.“