Arion banki hefur uppfært bókfært virði Blikastaðalandsins í 7,1 milljarð króna. Sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við telja landið mun verðmætara. Könnun Akks sýnir að 85% svarenda telja landið 25 milljarða virði eða meira.
Landið er í eigu Blikastaðalands ehf. sem er í endanlegri eigu Arion banka. Samkvæmt samningi við Mosfellsbæ fylgja uppbyggingunni ýmsar kvaðir á landeigandann. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag 1. áfanga svæðisins fari í kynningu í haust.
Arion banki á eitt stærsta byggingarland landsins en það er Blikastaðalandi í Mosfellsbæ. Blikastaðalandið, sem er 98 hektarar að stærð, er eitt stærsta óbyggða land á höfuðborgarsvæðinu. Á svæðinu er gert ráð fyrir á bilinu 3.500 til 3.700 íbúðum, þar af verða 20% fasteigna sérbýli.
Í fjárfestakynningu Arion banka vegna uppgjörs fyrir árið 2024, kom fram að bókfært virði Blikastaðalands væri 6,7 milljarðar króna. Í ársbyrjun 2025 var tekin sú ákvörðun að virði Blikastaða myndi þróast í takt við verðlagsþróun, þar til næsta markverða áfanga í ferlinu yrði náð. Í lok júní var bókfært virði landsins uppfært í 7,1 milljarð króna.
Óvissuþættir
Þeir sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við eru sammála um að miðað við fjölda íbúða á svæðinu verði þetta að teljast mjög varfærið mat hjá Arion banka, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Á móti kemur að óvissuþættirnir eru nokkrir, sem dæmi er ekki búið að klára deiliskipulag 1. áfanga og þá hefur einnig áhrif hversu langan tíma þessi uppbygging mun taka. Væntanlega mun bókfært virði taka breytingum strax og deiliskipulag 1. áfanga verður samþykkt, svo dæmi sé tekið.
Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka byggir verðmatið á núvirtu sjóðstreymi að gefnum ýmsum forsendum og áhættuþáttum eins og þeim sem nefnd hafa verið.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Blikastaðalandið er í eigu Blikastaðalands ehf. sem er dótturfélag Landeyjar en endanlegur eigenda síðarnefnda fyrirtækisins er Arion banki. Þess má geta að Arnarland ehf. er í 51% eigu Arion banka í gegnum Landey. Fasteignafélagið Akurey ehf., sem Kristján Jóhannsson og Jóhann Ingi Kristjánsson eiga til helminga, á 49% í Arnarlandi. Eignarhlutur Arion í Arnarlandi var bókfærður á 1,6 milljarða króna í árslok 2024.
Um 85% telja landið 25 milljarða virði eða meira
AKKUR – greining og ráðgjöf gerði á dögunum könnun, þar sem spurningar voru sendar á áskrifendur og þeir beðnir að leggja mat á virði Blikastaðalandsins. Ríflega 100 svör bárust og var niðurstaðan sú að 85% þeirra telja virði Blikastaðalandsins vera 25 milljarðar eða meira. Reyndar telja um 32% landið vera meira en 40 milljarða króna virði.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.