Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gripið til aðgerða gagnvart stjórn völdum á Spáni og Ítalíu vegna afskipta þeirra af fyrirhuguðum samrunaviðræðum á fjármálamarkaði. Þetta frumkvæði framkvæmdastjórnarinnar hefur vakið athygli þungavigtarmanna á íslenskum fjármálamarkaði sem velta fyrir sér hvort þetta marki nýtt viðhorf sem kann að hafa áhrif á samrunaferlið hérlendis.
Valdamenn í Brussel hafa lengi haft áhyggjur af þverrandi samkeppnisfærni hins sameiginlega markaðar gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Áhyggjurnar beinast meðal annars að því að evrópsk stór fyrirtæki standi höllum fæti í samkeppni við fyrirtæki vestanhafs og í Kína, svo dæmi séu tekin.
Áhyggjurnar snúast ekki síst um samkeppnisfærni evrópsks fjármálamarkaðar. Framkvæmdastjórnin hefur lengi talað fyrir því að þörf sé á að liðka fyrir myndun samevrópskra fjármálarisa og stofnaði meðal annars svokallað bankabandalag Evrópu fyrir um fimmtán árum til að stuðla að slíkri þróun.
Hluthafar vilja eitt, stjórnvöld annað
Ekki hefur staðið á áhuga fjármálafyrirtækja á meginlandinu og hluthafa þeirra á yfirtökum og sameiningum. En valdhafar í aðildarríkjunum sjá ekki málin sömu augum. Nýjustu dæmin endurspeglast í kvörtunum framkvæmdastjórnarinnar yfir framgöngu stjórnvalda í Madríd annars vegar og Róm hins vegar. Þannig hefur stjórn sósíalista á Spáni sett ákveðin skilyrði fyrir 12 milljarða evra fjandsamlegri yfirtöku BBVA á katalónska bankanum Banco Sabadell. Þessi aukaskilyrði – sem fela m.a. í sér þriggja ára biðtíma áður en samruninn öðlast fullt gildi – eru sjaldgæf og aðeins notuð í undantekningartilvikum. Eins og bent er á í umfjöllun vefmiðilsins Politico, þá eru þessi skilyrði sett þrátt fyrir að yfirtakan hafi hlotið samþykki spænskra samkeppnisyfirvalda og beinlínis meðmæli frá spænska seðlabankanum. Skilyrðin eru sett með vísun í lagastoð sem heimilar slík afskipti vegna almenningshagsmuna.
Sambærileg mál, þar sem stjórnvöld fara beinlínis gegn ákvörðunum samkeppnisyfirvalda, eru uppi á Ítalíu. Þar lagði ríkisstjórn Giorgiu Meloni svo íþyngjandi skilyrði fyrir að heimila yfirtökutilboð Unicredit á keppinautnum Banco BPM, að fyrrnefndi bankinn ákvað að tilgangslaust væri að halda áfram með sameininguna. Stjórnvöld í Róm beittu lagabókstaf sem upphaflega var settur til að stöðva erlendar yfirtökur sem kynnu að ógna þjóðaröryggi. Rétt er að taka fram að samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins höfðu fyrir sitt leyti samþykkt samrunann og er nú málið til skoðunar hjá fjármálaeftirliti og samkeppnis yfirvöldum ESB.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 6. ágúst 2025. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.