Hlutabréf flugfélagsins Icelandair hækkuðu mest á nýloknum viðskiptadegi á Aðalmarkaði Kauphallar Nasdaq á Íslandi eða um 5,14% í tæplega 1,5 milljarða viðskiptum. Nemur gengi hlutabréfa félagsins í kjölfarið 1,84 krónu á hlut. Var um að ræða langmestu gengishækkun dagsins, en næst mest hækkaði gengi Skeljungs um 2,14% í aðeins 14 milljóna króna viðskiptum.

Grænt var yfir að litast í lok viðskiptadags í Kauphöllinni og hækkaði gengi 14 félaga af þeim 20 sem skráð eru á Aðalmarkað. Marel var eina félagið sem þurfti að sætta sig við gengislækkun en lækkunin var þó smávægileg, eða 0,23%. Stendur gengi bréfa félagsins nú í 870 krónum á hlut.

Heildarvelta viðskipta dagsins nam 5,5 milljörðum króna og hækkaði gengi OMXI10 úrvalsvísitölunnar um 0,4%. Stendur gengi vísitölunnar nú í 3.394,08 stigum.

Á First North hækkaði gengi Kaldalóns um 2,04% og gengi Play um 1,3%. Aftur á móti lækkaði gengi Solid Clouds um 5,56%, í einungis 212 þúsund króna viðskiptum.