Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,1% í 2,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í morgun. Icelandair leiddi lækkanir en gengi flugfélagsins féll um 3,2% í 142 milljóna króna veltu og stendur nú í 1,79 krónum á hlut.

Hráolíuverð hækkaði nokkuð í dag en verð á framvirkum samningar fyrir tunnu af Brent hráolíu hafa hækkað um nærri 6% í dag og nema nú tæplega 114,5 Bandaríkjadölum á hlut. Meðal skýringa fyrir hækkuninni samkvæmt fréttastofu Reuters er að aðildarríki Evrópusambandsins íhuga nú að leggja á bann á olíukaup af Rússlandi. Þá stöðvaðist framleiðsla í olíuhreinsunarstöð í Sádi Arabíu eftir drónaárás jemenska Hútí-fylkingarinnar.

Hlutabréfaverð Arion banka lækkaði um nærri 2% í 483 milljóna veltu í dag og nemur nú 173 krónum á hlut. Gengi Eimskips féll einnig um 1,8% í hundrað milljóna viðskiptum. Mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka sem féllu um 1,7% í 522 milljóna viðskiptum. Gengi Kviku stendur nú í 23 krónum á hlut.