Stjórnendur og stjórn Isavia taldi ákvæði loftferðalaga tryggja skuld Wow við félagið meðal annars á grundvelli héraðsdóms frá 2014. Í fundargerðum stjórnar kemur fram að Isavia hafi ekki viljað verða þess valdandi að Wow færi á hausinn.

Í dag fer fram munnlegur málflutningur í máli Air Lease Corporation gegn Isavia þar sem félagið fer fram á að kyrrsetningu vélar félagsins verði aflétt. Áhöld eru uppi um það hvort heimilt sé að kyrrsetja eign þriðja manns til tryggingar skuld félagsins við Isavia. Búist er við að niðurstöðu sé að vænta á morgun.

Aðdragandi kyrrsetningarinnar er rakinn í fundargerðum stjórnar Isavia en Viðskiptablaðið fékk afrit af þeim í krafti upplýsingalaga. Af þeim má ráða að tryggingar á greiðslum flugrekenda sem lenda í vanskilum hafi fyrst verið ræddar á fundi stjórnar 23. ágúst 2018 eftir að sagt var frá skuldabréfaútboði Wow.

Á þessu tímamarki var stjórn félagsins aftur á móti ekki upplýst um skuldastöðu Wow við ISAVIA. Það var gert á fundi þremur vikum síðar en eina dagskrármálið var að upplýsa stjórn um stöðu mála vegna óvissu um fjármögnun félagsins. Fram hafði komið beiðni Wow um greiðslufrest á notendagjöldum sem væru í vanskilum og Isavia væri að skoða þá beiðni með hliðsjón af viðskiptahagsmunum sínum.

„Ljóst er að Isavia hefur ríka heimild til að stöðva loftfar og með því tryggja greiðslu gjalda sem fallið hafa til hjá flugrekandanum. Þá getur félagið bundið frestun ýmsum frekari skilyrðum sem auðveldar félaginu beitingu slíkra stöðvunarheimilda,“ segir í fundargerðinni. Stjórn Isavia gerði ekki athugasemdir við beiðni Wow og féllst á að svara henni enda yrði í svarinu tvíþættur fyrirvari um að samþykki stjórnar þyrfti fyrir frestun greiðslu og að fjármögnum félagsins lyki með fullnægjandi hætti.

Skuldaði milljarð í júlí

Á næsta fundi stjórnar, sem fram fór 28. september, lá greiðsluáætlun vegna vanskila Wow fyrir og gerði stjórnin ekki athugasemd við hana. Áætlunin sýnir að vanskil Wow í lok júní námu 509 milljónum króna og höfðu tvöfaldast mánuði síðar. Eindagi notendagjalda vegna ágúst og september var ekki runninn upp þegar áætlunin var gerð. Af því má ráða að staða Wow hafi verið orðin nokkuð þung áður en skuldabréfaútboð félagsins hófst.

Samkvæmt áætluninni átti fyrsta greiðslan að vera innt af hendi 1. nóvember 2018 og sú síðasta tólf mánuðum síðar. Fyrstu sjö mánuðina skyldu greiðast 30 milljónir auk vaxta en frá og með júní 2019 átti mánaðarleg greiðsla að hækka upp í 145 milljónir. Ársvextir kröfunnar námu níu prósentum og skyldu dráttarvextir reiknast samkvæmt notendaskilmálum Keflavíkurflugvallar.

Þá er í áætluninni kveðið á um að ávallt sé hið minnsta ein flugvél Wow staðsett á Keflavíkurflugvelli eða á leið til vallarins og komin með staðfestan komutíma. Höfundur skjalsins er Karl Alvarsson, yfirlögfræðingur Isavia, og var það stofnað degi fyrir fund stjórnar. Skjalinu var síðast breytt 30. september, tveimur dögum eftir stjórnarfundinn, af Sveinbirni Indriðasyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Isavia.

Klukkan 21.30 sunnudagskvöldið 24. mars 2019 fór fram símafundur nýrrar stjórnar, en hún hafði verið kjörin þremur dögum áður, eftir að viðræðum Wow við Indigo og Icelandair lauk án árangurs. Í ljósi stöðunnar sem upp var komin þurfti að taka afstöðu til þess hvort beita ætti kyrrsetningarheimild félagsins eður ei.

„Nokkur umræða var um þessa stöðu og ljóst að stöðvunaraðgerðin gæti og væti jafnvel líkleg til að hafa neikvæð keðjuverkandi áhrif á aðra kröfuhafa sem myndi á endanum leiða til falls [Wow],“ segir í fundargerðinni. Ákveðið var, að tillögu Orra Haukssonar, forstjóra Símans og nýs formanns stjórnar, að bíða með beitingu stöðvunarheimildar þar til fyrir lægi hvort rekstarleyfi félagsins yrði afturkallað. Vélin var kyrrsett fjórum dögum síðar, sama dag og Wow skilaði inn rekstarleyfi sínu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .