Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um nærri 5% í fyrstu viðskiptum dagsins og stendur í 127,6 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð, en við lokun markaða í gær var gengi bankans 122 krónur á hlut. Gengi Íslandsbanka er nú meira en 9% yfir 117 krónu söluverðinu í útboði Bankasýslu ríkisins sem fór fram í gær.
Söluferli Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka til fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila hófst skömmu eftir lokun Kauphallarinnar í gær og lauk kl. 21:30. Bankasýslan ákvað að selja að lágmarki 400 milljónir hluti í bankanum en fjölgaði seldum hlutum í 450 milljónir vegna „verulegrar umframeftirspurnar“. Alls fékk ríkið 52,7 milljarða fyrir söluna í gær.
Sjá einnig: Ríkið selur 22,5% hlut á 52,7 milljarða
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2% í fyrstu viðskiptum dagsins. Gengi Kviku banka hefur hækkað um 3% og stendur í 23,5 krónum. Arion banki hefur sömuleiðis hækkað um 2,6% frá opnun Kauphallarinnar.