Rekstur Ís­lands­banka á fyrri helmingi ársins 2025 skilaði 12,4 milljarða króna hagnaði, sem jafn­gildir 11,1% arð­semi eigin fjár.

Arð­semin er um­fram leiðbeiningar bankans fyrir árið í heild og rekstrar­grund­völlurinn styrkist enn frekar á öðrum árs­fjórðungi.

Ís­lands­banki birti í dag upp­gjör sitt fyrir annan árs­fjórðung og fyrstu sex mánuði ársins 2025.

Hagnaður af rekstri á öðrum árs­fjórðungi nam 7,2 milljörðum króna, sem er um 18% yfir spám grein­enda. Til saman­burðar hagnaðist bankinn um 5,3 milljarða króna á sama tíma­bili í fyrra.

Hagnaður fyrir árið hingað til er því 12,4 milljarðar, sem er aukning frá 10,7 milljörðum á fyrri hluta 2024. Arð­semi eigin fjár mælist 11,1% fyrir fyrri hluta ársins en var 9,8% á sama tíma­bili í fyrra.

Hreinar vaxta­tekjur bankans jukust um 9% milli ára og námu 26,8 milljörðum króna á fyrri hluta ársins. Á öðrum fjórðungi einum námu þær 13,9 milljörðum króna. Vaxta­munur á fjórðungnum mældist 3,3%, sem er hærra en bæði á fyrri fjórðungi ársins og öðrum fjórðungi í fyrra.

Rekstrar­kostnaður er áfram aðhalds­samur. Stjórnunar­kostnaður var 14,7 milljarðar króna á fyrri hluta ársins og jókst aðeins frá fyrra ári, þegar litið er fram hjá ein­skiptisliðum. Kostnaðar­hlut­fall lækkaði úr 44,8% í 44,1%, sem endur­speglar hag­ræðingu í rekstri.

Á öðrum fjórðungi var hlut­fallið komið niður í 41,0%, saman­borið við 45,7% í fyrra.

„Óhætt er að segja að annar árs­fjórðungur ársins 2025 hafi verið viðburðaríkur í rekstri Ís­lands­banka. Sala ríkisins á eftir­standandi eignar­hlut þess í bankanum í maímánuði gekk vel. Hún markaði tíma­mót í rekstri Ís­lands­banka og það eru spennandi tækifæri sem gefast við slík tíma­mót. Þá var sér­stak­lega ánægju­legt að sjá mikla þátt­töku al­mennings í út­boðinu en virk þátt­taka ein­stak­linga á hluta­bréfa­markaði er stórt skref í því að auka virkni og dýpt markaðarins hér heima og fögnum við auknum um­svifum ein­stak­linga á verðbréfa­markaði,” segir Jón Guðni Ómars­son, banka­stjóri Ís­lands­banka.

Þóknana­tekjur vaxa og útlán aukast

Hreinar þóknana­tekjur voru 6,7 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins, sem er 7,5% aukning frá sama tíma­bili í fyrra. Á öðrum fjórðungi námu þær 3,6 milljörðum króna, sem er 12,8% aukning milli ára. Fjár­muna­tekjur voru tak­markaðar en jákvæðar á fjórðungnum, sem stendur í skörpum and­stæðum við neikvæðan fjár­muna­lið í fyrra.

Útlán til við­skipta­vina jukust um 32,4 milljarða króna frá fyrsta fjórðungi og stóðu í 1.331 milljarði króna í lok júní. Inn­lán frá við­skipta­vinum námu 966 milljörðum króna og jukust um 3,1% frá mars.

„Fram undan eru spennandi tímar og staða Ís­lands­banka er afar sterk. Um­fram eigið fé (CET1) bankans nam um 40 milljörðum króna í lok fjórðungsins og horfir bankinn enn til vaxtartækifæra, jafnt innri og ytri. Bankinn hóf endur­kaup á eigin bréfum að nýju í byrjun júlí eftir að hafa gert hlé í lok fyrsta árs­fjórðungs 2025 og ýtti þar með úr vör endur­kaupum fyrir allt að 15 milljarða króna að markaðsvirði,” segir Jón Guðni.

Traust eigin­fjár­staða og lítil virðis­rýrnun

Eigin­fjár­hlut­fall Ís­lands­banka var 21,5% í lok annars fjórðungs og sam­svarandi eigin­fjár­hlut­fall CET1 var 18,5% – sem er 330 punktum yfir kröfum Fjár­mála­eftir­litsins og hærra en fjár­hags­legt mark­mið bankans.

Virðis­breyting á fjár­eignum var jákvæð um 402 milljónir króna á öðrum fjórðungi og um 399 milljónir á fyrri helmingi ársins. Áhættu­kostnaður útlána var neikvæður, eða -0,12%, sem þýðir að endur­mat fjár­eigna hefur verið til tekna fyrir bankann.

Lækkun eigin­fjár­hlut­falls skýrist að hluta af endur­kaupaáætlun og lækkun hluta­fjár, sem Seðla­bankinn veitti leyfi fyrir í vor. Sam­hliða eru MREL-kröfur vel upp­fylltar – MREL-hlut­fallið stendur í 36,7%, eða 720 punktum yfir lág­marks­kröfu.