Ísraelska fjártæknifyrirtækið Rapyd, sem býður upp á ýmis konar greiðslulausnir á alþjóðavísu, er metið á 15 milljarða dala, eða sem nemur um 1.996 milljörðum króna. Calcalist greinir frá, en með þessu er félagið orðið verðmætasta nýsköpunarfyrirtæki í sögu Ísrael.
Rapyd hefur verið að gera sig gildandi a greiðslulausnamarkaði hér á landi. Þannig festi félagið kaup á Korta árið 2020 og sumarið 2021 var greint frá því að félagið hafi komist að samkomulagi við Arion banka á Valitor. Síðarnefndu kaupin bíða þó enn samþykkis Samkeppniseftirlitsins.
Á meðal fjárfesta sem hafa lagt Rapyd til fé í gegnum tíðina er eignastýringarrisinn BlackRock, Fidelity, General Catalyst, Target Global og Spark Capital.
Rapyd var stofnað árið 2015 af Arkady Karpman, Arik Shtilman og Omar Priel. Frá stofnun hefur félagið safnað alls 960 milljónum dala í gegnum fjármögnunarumferðir.