Á þriðja ársfjórðungi 2020 hagnaðist alþjóðlega hótelkeðjan Marriott um yfir 100 milljónir Bandaríkjadala, andvirði 13,8 milljarða króna. Marriott tapaði 234 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi 2020 og telur forstjóri félagsins niðurstöðuna til marks um aukna eftirspurn um heim allan.
Marriott dró saman rekstrarkostnað sem og annan kostnað um meira en helming milli fjórðung. Enn fremur jókst eftirspurn eftir ferðalögum sem náði lágpunkti í mars og apríl. The Wall Street Journal segir frá því að hótelkeðjan hafi einkum helst fundið fyrir aukinni eftirspurn frá neytendum á meginlandi Kína.
- Sjá einnig: 3% nýting á virkum dögum
Heildartekjur Marriott námu 2,25 milljörðum dollara en greinendur höfðu gert ráð fyrir um 2,22 milljörðum. Aðlagaður hagnaður á hvert hlutabréf nam sex sentum en greinendur höfðu gert ráð fyrir að fyrirtækið myndi tapa átta sentum á hvert bréf. Neikvæðar matsbreytingar drógu hagnað félagsins niður um 24 milljónir dollara, eftir skatta.
Haft er eftir forstjóra Marriott að 94% af herbergjum hótelsins á heimsvísu séu opin. Hóppantanir fyrir í lok þriðja ársfjórðungs fyrir 2021 hafa dregist saman um nær þriðjung milli ára og gerir forstjórinn ráð fyrir minni samdrætti eftir því sem lengra líður inn á næsta ár.