Fjórar stærstu hótelkeðjur landsins; Íslandshótel, Icelandair hótel, Keahótel og Centerhotels eiga alls 48 hótel hérlendis með samtals rúmlega 5.000 herbergjum. Af þeim eru 15 hótel opin með tæplega 2.200 herbergjum, eða um 43% heildarherbergja. Alls eru 26 hótel staðsett á höfuðborgarsvæðinu og sjö af þeim eru opin, eða rúmlega fjórðungur. Á þeim 26 hótelum eru tæplega 3.400 herbergi og af þeim eru tæplega 1.400 opin eða um 41%.

Af áðurnefndum keðjum eru Íslandshótel með flest hótel eða sautján talsins, þar af eru fimm starfrækt eins og er, tæplega þriðjungur. Alls eru þau með 1.850 herbergi og þar af eru um þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Sex hótel eru á áðurnefndu svæði en einungis eitt þeirra er opið, Grand hótel, þar sem eru 311 herbergi.

Hlutfall opinna herbergja af heildarherbergjafjölda gefur ekki lýsandi mynd af umsvifum hvers hótels, enda bókunarstaða allt önnur en núverandi framboð, þrátt fyrir að hlutfallið gefi vísbendingu um samdrátt hótelreksturs. Um 20-40 herbergi eru í útleigu að jafnaði á virkum dögum hjá Centerhotels eða um þrjú prósent af öllum herbergjum hótelsins og um sjö prósent af opnum herbergjum. Um helgar eru eilítið fleiri herbergi til útleigu en uppistaðan af gestum Centerhotels nú um mundir eru Íslendingar. Stjórnendur hinna hótelkeðjanna vildu ekki veita upplýsingar um bókunarstöðu félaganna.

Hlutfall opinna herbergja af heildarherbergjum er alla jafna lægra á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Lægst er hlutfallið hjá Keahótel eða tæplega 19%. Keðjan á níu hótel, en þau voru áður ellefu, og eru herbergin alls 773. Einungis þrjú hótel eru nú starfrækt og 306 herbergi opin, eða um 40% allra herbergja. Félagið er með sex hótel og 529 herbergi á höfuðborgarsvæðinu en einungis hótel Borg er opið, þar sem skráð eru 99 herbergi.

Icelandair hótel eru með fjórtán hótel hérlendis og eru nú fimm þeirra opin að jafnaði. Til viðbótar eru þrjú af þeim opin á sumrin og eitt opið um helgar. Sex hótel eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu en af þeim eru þrjú opin; Hilton Reykjavík Nordica, Alda Hótel Reykjavík og Reykjavík Natura.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hótela, segir að „bókanir fyrir veturinn hafa farið nokkuð vel af stað á landsbyggðinni, og virðist sem svo að Íslendingar ætli að vera áfram duglegir að ferðast innanlands á meðan minna er um ferðir til útlanda.“ Enn fremur segir hún að hótelin í Reykjavík séu fyrst og fremst nýtt af erlendum ferðamönnum og því hafi þurft að bregðast við og loka nokkrum þeirra.

Greiðslufrestur til júlí 2021

Fyrir um mánuði síðan var greint frá því að viðskiptabanki Íslandshótela, Íslandsbanki, hefði samþykkt áframhaldandi frestun á greiðslu afborgana og vaxta af langtímalánum félagsins, sem og dótturfélaga þess og systurfélaga. Fresturinn var fyrst veittur í apríl á þessu ári og mun hann gilda til júlí 2021. Skuldabréfaeigendur Íslandshótela hafa einnig samþykkt að fresta greiðslum af skuldabréfum sínum og gera tilslakanir á fjárhagslegum skilmálum.

Félagið tapaði rétt rúmlega milljarði króna á fyrri hluta þessa árs, samanborið við 184 milljóna króna tap á sama tímabili á síðasta ári. Tekjur félagsins námu 2,1 milljarði króna á fyrri hluta ársins 2020 en 4,7 milljörðum árið áður. Launakostnaður á fyrri helmingi ársins nær helmingaðist milli ára og nam 1,3 milljörðum 2020.

Þær margvíslegu aðgerðir sem stjórnvöld hafa sett fram til þess að sporna við áhrifum veirufaraldursins hafa nýst hótelum verulega. Má þar nefna hlutabótaleiðina, lokunarstyrki, greiðsluskjól, greiðslu launa á uppsagnarfresti og stuðningslán. Í lok síðasta mánaðar kynnti ríkisstjórnin átta aðgerða pakka sem ætlað er að stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika í tengslum við Lífskjarasamninginn. Þar á meðal var allt að sex milljarða fjárstuðningur við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins. Alla jafna myndi hótelrekstur falla þar undir, en ekki liggur fyrir hve há fjárhæð mun renna til hótela. Ríkisstjórnin stefnir einnig á að lækka tryggingagjald tímabundið í eitt ár, eða til loka ársins 2021.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .