Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, átti ekki sjö dagana sæla í vikunni þegar réttarhöld í sakamáli sem tengist þagnargreiðslum hans til klámstjörnunnar Stormy Daniels héldu áfram í Manhattan í New York ríki.

Á þriðjudag fékk hann 9 þúsund Bandaríkjadala sekt fyrir að óhlýðnast ítrekað úrskurði sem bannaði honum að tjá sig opinberlega um málið (e. gag-order) en hann hafði birt ýmsar færslur á samfélagsmiðli sínum, Truth Social. Sagði dómarinn að ef hann læti ekki af háttseminni þá gæti hann átt yfir höfði sér fangelsisvist.

Gert er ráð fyrir að réttarhöldin, þar sem Trump er ákærður í 34 liðum, standi yfir í sex vikur og fjöldi vitna gefi skýrslu. Mikið er í húfi fyrir Trump, sem stendur um þessar mundir í miðri kosningabaráttu.