Annarsflokks er hönnunar- og rannsóknarverkefni sem sýnir fram á notagildi og gæði annars flokks æðardúns. Verkefnið felur í sér að hanna fatalínu og þróa framleiðsluferli úr annars flokks æðardúni með það að markmiði að auka þekkingu á þessari dýrmætu náttúruafurð á Íslandi.

Á bak við verkefnið eru vöruhönnuðirnir og æðarbændurnir, Íris Indriðadóttir og Signý Jónsdóttir, hjá Studio Erindrekum ásamt Sigmundi Páli Freysteinssyni fatahönnuði og textílsérfræðingi. Á sýningunni fá gestir að sjá frumgerðir af fatnaði úr annarsflokks æðardúni sem verður framleiddur hérlendis í framhaldi sýningar ef lögum um gæðamat verður breytt.

Miðað við núverandi lög má ekki selja dún ef hægt er að greina örtrefjar annarra efna úr náttúrunni. Þær Signý og Íris segja slíkar örtrefjar geta mögulega haft örlítil áhrif á einangrunar eiginleika hráefnisins en að öðru leyti skipti þær engu máli og skerði gæðin ekki á annan hátt. Þær tala fyrir því að bæta við flokki svo þær geti nýtt allt hráefni sem safnast.

„Þetta er besti og dýrasti dúnn sem til er og allt of stór hluti hans fer til spillis vegna þess að það eru örtrefjar af öðru náttúrulegu efni í bland sem breytir mjög litlu. Af hverju það er ekki hægt að sætta sig við að það sé 2% lúpína og 98% dúnn skiljum við ekki.“

Sýningin er hluti af HönnunarMars og er opin öllum í Ásmundarsal. Boðið er upp á leiðsögn um sýninguna á völdum dögum.

Viðtalið er að finna í blaðinu Eftir vinnu sem kom út á miðvikudag.

Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.