Flugfélagið Bláfugl, sem hætti fraktstarfsemi í lok aprílmánaðar, tapaði 3,3 milljónum dala, eða sem nemur 458 milljónum króna, á síðasta ári. Til samanburðar hagnaðist félagið um 238 milljónir árið 2022. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Bláfugls, sem er í eigu litháísku samstæðunnar, Avia Solutions Group (ASG).

Rekstratekjur Bláfugls, sem hefur starfað undir nafninu Bluebird Nordc, drógust saman um 22% milli ára og námu 85 milljónum dala eða um 11,7 milljörðum króna. Til viðbótar var söluhagnaður vegna sölu flugvélar upp á 3,3 milljónir dala eða í kringum 460 milljónir króna.

Bláfugl hefur einna helst sérhæft sig í svokallaðri blautleigu (e. wet lease) flugvéla þar sem áhöfn, viðhald og tryggingar fylgja með leigunni.

„Á árinu 2023 hafði samdráttur í eftirspurn eftir flugfrakt áhrif á rekstur félagsins,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningnum.

„Samdráttur í eftirspurn á flugfraktmarkaði hefur verið undir áhrifum af þáttum eins og samdrætti tekna í rafrænum viðskiptum, áframhaldandi umbótum í getu fraktflutninga og mikilla betrumbóta í farþegaflutningum almennt, samkeppni við aðra flutningsmáta, þar á meðal landflutninga og sjóflutninga þar sem félagið stóð frammi fyrir áskorunum meðan á Covid-faraldri stóð þegar mörgum af helstu höfnum var lokað. Að auki hefur vöruflutningaflugvélum einnig fjölgað umtalsvert þar sem miklar breytingar hófust meðan á heimsfaraldri stóð.“

Félagið segist hafa, í ljósi markaðsþróunar og viðvarandi áskorana í rekstri, gripið til skjótra hagræðingaraðgerða í fyrra. Félagið fækkaði „verulega“ starfsmönnum, fækkaði áhafnarmeðlimum og utanaðkomandi birgjum þar sem hægt var að sinna tilteknum verkefnum innbyrðis.

Auk þess hafi félagið stundað mikla sölustarfsemi á markaði til að finna útleigu eða leigustarfsemi fyrir flugvélarnar. „Vegna markaðsaðstæðna var þó ekki öllum flugvélum félagsins úthlutað til reglulegrar atvinnustarfsemi.“

Eigið fé neikvætt um hálfan milljarð í árslok 2023

Bláfugl skilaði rekstrarhagnaði (EBIT) upp á 5,4 milljónir dala eða um 745 milljónir króna í fyrra. Hrein fjármagnsgjöld, sem má að stærstum hluta rekja til leigusamninga, námu 7,4 milljónum dala, eða um einum milljarði króna.

Eignir Bláfugls voru bókfærðar á 107,7 milljónir dala eða um 14,7 milljarða króna í lok árs 2023. Skuldir námu 15,1 milljarði króna og eigið fé var neikvætt um 460 milljónir króna.

„Vegna fjárhagslegra áskorana sem taprekstur félagsins hefur í för með sér hafa nokkrar mögulegar sviðsmyndir verið skoðaðar fyrir framtíðarhorfur félagsins, þar á meðal möguleiki á að selja réttindi og skyldur félagsins á flugvélaleigusamningum. Í kjölfar verulegs samdráttar á markaði hafa stjórnendur félagsins ákveðið að hætta starfsemi félagsins á sviði fraktflutninga,“ segir í skýrslu stjórnar sem undirrituð var 29. apríl síðastliðinn.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá þá skilaði Bláfugl inn íslenska flugrekstrarleyfi sínu í lok síðasta mánaðar. Í kjölfarið tilkynnti félagið að það hefði ákveðið að hætta fraktstarfsemi.