Hag­spá Lands­bankans spáir því að í­búða­verð haldi á­fram að hækka árinu líkt og síðustu mánuði. Í nýrri hag­spá bankans er gert ráð fyrir að í­búða­verð hækki um 7% á þessu ári og um 8-9% næstu tvö ár.

Á sama tíma spáir Hús­næðis- og mann­virkja­stofnun því að nýjum full­búnum í­búðum fækki með hverju árinu og fjöldi þeirra komist ekki ná­lægt því að mæta í­búða­þörf.

„Eftir kröftugar verð­hækkanir á far­aldurs­árunum kólnaði í­búða­markaður veru­lega þegar vaxta­stigið tók að hækka og um mitt síðasta ár fór að bera á verð­lækkunum stöku mánuði. Markaðurinn náði sér þó hratt á strik og lík­lega hjálpaði til að hlut­deildar­lánum fjölgaði vegna reglu­breytingar um þau skil­yrði sem um­sækj­endur þurfa að upp­fylla,“ segir í hag­spá bankans.

Í­búða­verð hækkaði um að meðal­tali 5,1% á síðasta ári og í mars síðast­liðnum hafði í­búða­verð hækkað um 5,2% á 12 mánuðum.

Hús­næðis­kostnaður varð aftur einn helsti drif­kraftur verð­bólgunnar á seinni hluta síðasta árs og hefur þannig hækkað meira en flestir aðrir undir­liðir verð­bólgunnar upp á síð­kastið.

Á sama tíma lækkaði raun­verð í­búða lítil­lega milli ára í fyrra en er nú aftur á upp­leið og var 0,5% hærra í mars á þessu ári en í mars í fyrra.

„Velta á í­búða­markaði virðist einnig hafa aukist og kaup­samningum hefur fjölgað statt og stöðugt á síðustu mánuðum. Undir­ritaðir kaup­samningar voru 24% fleiri í mars á þessu ári en í mars í fyrra og 27% fleiri nú í febrúar en í sama mánuði í fyrra. Fram til í ágúst í fyrra fækkaði kaup­samningum á milli ára í hverjum mánuði í um það bil tvö ár. Því er ó­hætt að segja að markaðurinn hafi lifnað við á seinni helmingi síðasta árs, bæði hvað varðar verð og veltu.“

Í takt við hækkandi verð og fjölgun kaup­samninga fjölgar þeim í­búðum hlut­falls­lega sem seljast yfir á­settu verði sam­kvæmt Lands­bankanum. Hlut­fallið fór yfir 50% í far­aldrinum þegar eftir­spurn hafði snar­aukist vegna lágra vaxta, en gaf svo hratt eftir og var nokkuð stöðugt í kringum 10% allt síðasta ár.