Skúli Mogensen og Ólafur Hand hafa fjárfest í Spjallmenni.is en félagið var stofnað af ungum frumkvöðlum um tvítugt. Leggja þeir áherslu á hagnýtingu gervigreindar og hafa þróað lausn fyrir þjónustufyrirtæki sem miðast við að auka gæði svörunar með sparnað og þjónustu að leiðarljósi.

Gervigreindarlausnin tengir, flokkar og svarar flestöllum samskiptum sem berast fyrirtækjum í gegnum spjallmenni á vefsíðu, tölvupóst, Google, Meta, Whatsapp, Booking og fleira.

Fyrirtækið var stofnað af þeim Ástvaldi Ara Guðmundssyni, Daníel Ólafi Stefánssyni Spanó og Róberti Híram Ágústssyni. Ástvaldur er verðandi fjármálaverkfræðingur, Róbert Híram er fjármálaverkfræðingur og verðandi tölvunarfræðingur og Daníel Spanó stundar nám í stafrænni stjórnun við Copenhagen Business School í Kaupmannahöfn.

„Gervigreindarlausnin og stofnendur Spjallmenni komu mér skemmtilega á óvart og vöktu áhuga minn og Ólafs Hand félaga míns á því að fjárfesta í félaginu, enda ljóst að tækifærin á komandi árum fyrir þeirra lausnir eru óteljandi. Það er einfaldlega þannig að fyrirtæki sem ekki taka gervigreindinni opnum örmum verða eftir í samkeppninni,“ segir Skúli Mogensen, einn af eigendum Hvammsvíkur sjóbaða.

Daníel Ólafur Stefánsson Spanó, Ástvaldur Ari Guðmundsson, Róbert Híram Ágústsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Lausnin hefur nú þegar verið tekin í notkun hjá sjóböðunum í Hvammsvík og ABC Hotel í Keflavík. Spjallmenni.is notast við gagnvirkan gervigreindarþjónustufulltrúa sem svarar spurningum viðskiptavina á yfir 100 tungumálum, þar á meðal íslensku.

„Það er frábært fyrir okkur að fá reynslu og þekkingu Skúla og Ólafs inn í fyrirtækið okkar á þessum tíma. Hvatning þeirra er okkur mikilvæg og við hlökkum til að halda áfram þróun og innleiðingu lausnarinnar hjá viðskiptavinum okkar hér á Íslandi og erlendis,” segir Daníel Spanó, einn af stofnendum Spjallmennis.is.