Pasco Shikishima Corportation, sem framleiðir eina þekktustu brauðtegund Japans, hefur neyðst til að innkalla þúsundir brauðpoka eftir að leifar af rottum fundust í að minnsta kosti tveimur pakkningum.

Samkvæmt BBC hafa um 104 þúsund brauðpokar verið fjarlægðir úr vöruhillum en brauðið er étið nánast daglega á mörgum japönskum heimilum og er selt alls staðar í landinu.

„Við biðjumst innilega velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið viðskiptavinum okkar og öllum hlutaðeigandi aðilum. Við munum gera okkar besta til að auka gæðaeftirlit þannig að þetta gerist aldrei aftur,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu sem veit ekki enn hvernig leifarnar rötuðu í pokana.

Verksmiðja Pasco hefur stöðvað alla framleiðslu en vörur þess eru einnig fluttar út til Bandaríkjanna, Kína, Ástralíu og Singapúr.

Slíkar matarinnkallanir eru mjög sjaldgæfar í Japan en landið er þekkt fyrir strangar hreinlætiskröfur. Undanfarið hafa þær þó aukist en fyrr í mánuðinum veiktust til að mynda hundruð nemenda í norðausturhluta landsins eftir að hafa drukkið skemmda mjólk.

Í fyrra tilkynnti svo matvöruverslunin 7-Eleven að kakkalakki hefði fundist í hrísgrjónakúlu og neyddist fyrirtækið til að gera svipaða innköllun.