Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að breytt aðferðarfræði Hagstofu Íslands til að mæla reiknaða húsaleigu í vísitölu neysluverðs muni hafa „verulega mikil áhrif“ til meðallangs og langs tíma litið. Þetta kom fram í svörum hans á fundi Seðlabankans á miðvikudaginn.

Hagstofan tilkynnti í lok mars að í júní næstkomandi verði tekin upp aðferð húsaleiguígildis við útreikning á reiknuðu húsaleiguna, sem felur í sér að notuð verða gögn um leigusamninga til þess að meta ígildi húsaleigu fyrir fasteignir sem eru í einkaeigu. Aðferð húsaleiguígildis kemur í stað aðferðar einfalds notendakostnaðar sem hefur verið notuð hér á landi frá árinu 1992.

Í nýju riti Peningamála, sem Seðlabankinn gaf út á miðvikudaginn, segir að við þessa breytingu hefur raunvaxtakostnaður húsnæðislána ekki lengur bein áhrif á reiknaða húsaleigu.

Seðlabankinn telur óvissu ríkja um um hver skammtíma áhrif breytingarinnar verða á mælda verðbólgu.

„Þótt líklegt sé að sveiflur tengdar húsnæðisverði minnki er erfitt að meta fyrirfram hver skammtímaáhrifin verða á þróun mældrar verðbólgu,“ segir í Peningamálum.

„Mæld verðbólga gæti hins vegar orðið tregbreytanlegri þar sem stór hluti leigusamninga er verðtryggður. Til lengri tíma ættu ólíkir mælikvarðar á kostnaði vegna eigin húsnæðis hins vegar að fylgjast ágætlega að.“

Ásgeir: Einfaldara fyrir Seðlabankann

Á fundi Seðlabankans í kjölfar vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar á miðvikudaginn sagðist Ásgeir telja sjálfur að áhrif af breyttri aðferðarfræði reiknuðu húsaleigunnar á vísitölu neysluverðs muni hafa veruleg áhrif til meðallangs og langs tíma litið auk þess sem „dýnamíkin á bak við peningastefnuna gæti breyst mikið“.

„Ég held að dýnamíkin í verðbólgumælingunum breytist mjög mikið. Þ.e. eins og mælingarnar hafa verið þá hefur verðbólgan verið bundin við eignaverð sem hefur oft hreyfst mjög hratt. Hvort sem þetta hafi mikla þýðingu á næstu 3-6 mánuðum er annað. Við höfum séð núna t.d. að leiguverð hefur verið á töluvert mikilli hreyfingu,“ sagði Ásgeir.

„Leiguverð er öðruvísi en fasteignaverð, leiguverð er bundið við tekjur fólks. Fólk borgar leiguna sína, þessa reiknuðu leigu, við hver mánaðamót. Fasteignaverðið eins og það hefur verið mælt, það eru alls konar hlutir sem hafa áhrif á það – þróun á markaði, vaxtakostnaður og margir aðrir hlutir fleiri. Þannig út frá verðbólgunni, þá verður þetta miklu einfaldara.“

Ásgeir sagði að frá sjónarhorni Hagstofunnar sé nýja aðferðafræðin með mælingum út frá leigusamningum flóknari.

„En út frá sjónarmiði Seðlabankans þá er einfaldara að horfa á leiguverð heldur en að vera að velta fyrir sér allri þeirri dýnamík sem fylgir fasteignamarkaðnum – [þar sem] alls konar hlutir eins og framboð og eftirspurn og fjármagnskostnaður hafa áhrif.“

Ýtir undir verðbólguvæntingar til skamms tíma

Í könnun á væntingum markaðsaðila sem Seðlabankinn framkvæmdi í lok síðasta mánaðar, voru markaðsaðilar spurðir út hvaða áhrif þeir telja að innleiðing á nýju aðferðafræðinni muni hafa á þróun verðbólgu til skamms tíma, þ.e. til eins og tveggja ára?

Tveir þriðju svarenda, eða 67,9%, sögðust telja að verðbólga verði meiri en ella til skamms tíma við breytta aðferðafræði. Í tilkynningu Seðlabankans kemur fram að flestir svarendur hafi tekið fram að mat þeirra byggist á því að íbúðaverð hafi hækkað langt umfram leiguverð á undanförnum misserum og gæti hækkun fasteignaverðs því komið fram í hærra leiguverði á næstunni.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, spurði Ásgeir út í þessi svör á framangreindum fundi.

„Mér finnst mjög áhugavert ef þessi breyting á mælingum er að leiða til hærri verðbólguvæntinga,“ sagði Ásgeir. „Það er kannski ekki alveg það sem maður hefði búist við. En við höfum séð miklar hækkanir á leigumarkaði undanfarið en á sama tíma dettur út þessi vaxtaþáttur.“

Ásgeir áréttaði að hann teldi áhrifin til skemmri tíma vera óljós. Til lengri tíma ætti breytingin að hafa í för með sér að verðbólga verði stöðugri en ella.