Hagstofan hefur um nokkurt skeið unnið að endurskoðun aðferða við mat á reiknaðri leigu í vísitölu neysluverðs, sem felur í sér breytingu á húsnæðisliðnum í vísitölu neysluverðs. Núverandi aðferð við að reikna reiknaða húsaleigu í húsnæðislið vísitölu neysluverðs kallast „einfaldur notendakostnaður“, og hefur aðferðin verið notuð frá árinu 1992.

Í stað núverandi aðferðar, sem byggir á verðbreytingum á fasteignamarkaði, vaxtastigi og afskriftum, ætlar Hagstofan að nota nýja aðferð og nota leiguígildi. Með breytingunni verður húsnæðisliðurinn reiknaður með líkari hætti og gert er í Bandaríkjunum og víða í Evrópu.

Hjalti Óskarsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að Hagstofan sjái sér nú fært að fara í þessar breytingar vegna betri tölfræðilegra gagna um leigumarkaðinn.

„Ástæðan fyrir því að Hagstofan segir að það séu breyttar forsendur er líklega sú að HMS er byrjað að safna gögnum um leigumarkaðinn. Ný lög tóku gildi í byrjun árs 2023 sem krefja leigusala til að skrá leigusamninga burtséð frá því hvort ætlunin sé að fá húsaleigubætur eða ekki. Áður var það þannig að þú þurftir einungis að þinglýsa ef þú vildir fá húsaleigubætur sem gerði það að verkum að engin gögn voru til um stóran hluta leigumarkaðarins.“

Aukinn stöðugleiki á húsnæðisliðnum

Hjalti segir að með nýju aðferðinni skapist aukinn stöðugleiki á húsnæðisliðnum til langs tíma.

„Það er í eðli leigusamninga og hvernig þeir eru gerðir, að þeir eru yfirleitt gerðir t.d. ár fram í tímann og eru oft tengdir við verðlagsvísitölu. Því mætti segja að verðmælingar verði stöðugri og einfaldari með nýju aðferðinni sem er klárlega kostur. Þannig er kostnaðurinn við að búa í eigin húsnæði metinn beint í leiguverðinu í stað þess að vera mældur óbeint í gegnum íbúðaverð, vexti og afskriftir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. miðvikudag, 7. febrúar.