Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota ræddi við Bíla, sérblað Viðskiptablaðsins, um stöðuna á bílamarkaðnum. Hann telur að skattlagning stjórnvalda á rafbíla hafi komið niður á sölunni.

Við erum, eins og svo oft áður að upplifa sveiflur í sölu á nýjum bílum og það er almennur samdráttur á markaðnum, ekki bara í sölu á rafbílum. 

Undanfarin ár voru góð en salan það sem af er ári en minni en í fyrra,“ segir Úlfar.

,,Skattlagning stjórnvalda á rafbíla hefur greinilega ekki góð áhrif á söluna og líklega bjóst enginn við því. Þarna togast ólíkir hagsmunir á.

Færa má góð rök fyrir því að notkun rafbíla skili sínu til samneyslunnar en á hinn bóginn er augljóst að á undanförnum árum voru lægri gjöld á rafbíla ráðandi þáttur þegar bílakaup voru ákveðin,“ segir hann.

Úlfar segir fullsnemmt að spá fyrir um söluna á árinu. ,,Kaupvilji er greinilega til staðar bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum en margt hefur áhrif á endanlega niðurstöðu, til dæmis vaxtastig, hagvöxtur, staða kjaraviðræðna og almenn stemning í samfélaginu,“ segir Úlfar.

Bílar, sérblað Viðskiptablaðsins, kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið viðtölin við forstjóra bílaumboðanna hér. Einnig geta áskrifendur lesið blaðið í heild sinni á vefnum.