Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, kveðst vera mikill talsmaður þess að húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs (VNV) verði endurskoðaður. Betri aðgangur að gögnum um leigumarkaðinn auðveldi mælingar á greiddri húsaleigu, „raunverulegri húsaleigu“, fremur en að styðjast áfram við reiknaða húsaleigu.

„Við eigum bara að fara í það form, það er augljóst fyrir mér,“ segir Benedikt í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Hagstofa Íslands tilkynnti í lok janúar um að til stæði að innleiða nýja aðferð við mat á reiknaðri leigu í vísitölu neysluverðs. Með betri gögnum um húsaleigu hafi skapast forsendur til þess að breyta um aðferð. Mat Hagstofunnar sé aðferð leiguígilda endurspegli nú betur tilgang mælingarinnar.

Benedikt fagnar þessari ákvörðun og segir ekki langt síðan að hann fór að lesa sig betur til um húsnæðisliðinn. Hann las m.a. skýrslu um aðferðafræði VNV sem sérfræðingahópur vann fyrir forsætisráðherra fyrir fáeinum árum. Þar hafi m.a. verið skoðað hvaða aðferðafræði stuðst er við í öðrum löndum.

„Starfsmenn nefndarinnar fóru í það – það var búið að benda á að þetta væri eins og í Svíþjóð - og töluðu við Hagstofuna í Svíþjóð. Hún sagði „nei, þetta er nú ekki gert svona í Svíþjóð, þið eruð eitthvað að misskilja þetta“.

Þá var komið til baka og það var sagt á móti „já, þið töluðuð ekki við réttan mann hjá Hagstofunni í Svíþjóð, þið verðið að tala við rétta manninn“. Þá var talað við þann mann og það var bara sama svar.“

Benedikt segist einnig hafa skoðað hvernig húsnæðisliðurinn er mældur í Bandaríkjunum. Aðferðafræðinni vestanhafs hafi verið breytt um miðjan níunda áratuginn „með þeim rökum að, eins og við erum að mæla þetta þá erum við ekki að mæla neyslu eða breytingu á neyslu, eða verði á neysluvörum heldur er verið að mæla fjárfestingu“ segir Benedikt.

„Þarna er verið að taka langtímafjármögnunarvexti og verðþróun fasteigna sem sameiginlega mynda hina svokölluðu reiknuðu húsaleigu. Á þeim tíma var sennilega ekki hægt að gera þetta öðruvísi því þá var leigumarkaðurinn svo lítill. Núna erum við með miklu hærra hlutfall íbúða í leigu og það er mjög vel haldið utan um þessa leigusamninga.“

Benedikt ræðir um húsnæðisliðinn í vísitölu neysluverðs frá 19:20-21:40.