Hagstofa Íslands mun frá og með júní næstkomandi nota aðferð húsaleiguígilda í stað aðferð einfalds notendakostnaðar við útreikning á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hagstofunnar.

Hagstofan tilkynnti í lok janúar að til stæði að innleiða nýja aðferð við mat á reiknaðri leigu í vísitölu neysluverðs. Samhliða verðbólgutölum í morgun birti stofnunin greinargerð um innleiðingu á nýrri aðferðafræði.

„Aðferð einfalds notendakostnaðar sem notuð hefur verið til að meta reiknaða húsaleigu hefur í grundvallaratriðum reynst vel þegar litið er til lengri tíma þróunar. Til skamms tíma hafa hins vegar komið fram frávik sem yfirleitt hefur mátt rekja til þróunar á fjármálamarkaði sem hafa haft veruleg áhrif á reiknuðu húsaleiguna,“ segir í greinargerðinni.

„Það er mat Hagstofunnar að þessi frávik séu of mikil til þess að hægt sé að réttlæta óbreytta aðferð.“

Hagstofan telur að með ítarlegri gögnum um leigumarkaðinn sé nú hægt að byggja líkan fyrir reiknaða húsaleigu á þann hátt að það nái til alls íbúðarhúsnæðis sem er í eigin notkun.

„Með slíku líkani má meta verðbreytingu á reiknaðri húsaleigu þannig að samræmi sé tryggt milli verðþróunar á leigumarkaði og notkunar eigin húsnæðis, óháð skammtímasveiflum á fjármálamarkaði.“

Flest lönd noti húsaleiguígildi

Útgjöld vegna húsnæðis eru í mörgum tilvikum stærsti útgjaldaliður heimilanna, óháð hvort þau velji að fjárfesta í eigin húsnæði eða vera á leigumarkaði.

Í greinargerðinni segir að þegar kemur að því að meta verðbreytingar á neysluútgjöldum vegna húsnæðis skapi tvíeðli á kostnaði vegna eigin húsnæðis í neyslu- og fjárafestingarkostnað ákveðinn vanda.

„Gagnvart þeim heimilum sem eru á leigumarkaði liggur ljóst fyrir með hvaða hætti verðbreytingar á húsnæðiskostnaði koma fram. Leiguútgjöld eru mælanleg og tengjast beint þeim útgjaldaþætti sem um er að ræða.

Gagnvart þeim sem búa í eigin húsnæði er málið hins vegar ekki eins einfalt þar sem engin raunveruleg greiðsla á sér stað fyrir afnot af eigin húsnæði. Það þarf því að grípa til þess ráðs að meta neysluútgjöld vegna notkunar á eigin húsnæði með óbeinum hætti.“

Innan vísitölufræðanna hafi þróast nokkrar aðferðir til að meta verðþróun eigin húsnæðis og hafa lönd valið mismunandi leiðir í því sambandi. Flest lönd hafi valið þá leið að meta einhverskonar húsaleiguígildi til að meta verðþróun eigin húsnæðis.

„Með húsaleiguígildi er leitast við að meta líklegustu leiguupphæð sem viðkomandi heimili hefðu þurft að greiða væru þau á leigumarkaði. Slíkt mat verður aldrei fullkomið en eftir því sem upplýsingar um leigumarkaðinn eru betri má vænta þess að gögn um þróun leiguverðs séu besta leiðin til að segja til um viðeigandi húsaleiguígildi.“

Auk húsaleiguígildis er nefndar í greinargerðinni aðferð nettókaupa þar sem verðbreytingar eru mældar út frá verði nýrra íbúða, greiðsluaðferð sem miðar að því að meta breytingar á húsnæðiskostnaði og aðferð notendakostnaðar sem byggir á þeirri sýn að við markaðsaðstæður endurspegli fjárfesting í íbúðarhúsnæði fórnarkostnaðinn af öðrum fjárfestingarkostum.

Sú leið sem valin var hér á landi, aðferð einfalds notendakostnaðar, var tekin upp árið 1992 og valin þar sem ekki var talið að leigumarkaðurinn væri nægjanlega umfangsmikill til að hægt væri að byggja á aðferð húsaleiguígildis.

Frávik í reiknaðri og greiddri húsaleigu

Í greinargerðinni er sýndur samanburður á þróun greiddu og reiknuðu húsaleiguna í VNV. Hagstofan segir að til yfir lengri tímabil fylgjast þessar tvær stærðir að en aftur á móti hafi komið tímabil þar sem töluvert frávik er til staðar þegar reiknaða húsaleigan víkur frá þeirri greiddu í mislangan tíma, en alltaf um nokkurra ára skeið í senn.

Mynd tekin úr greinargerð Hagstofunnar.

Byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var 2019

Breyting á útreikningum reiknuðu húsaleigunnar byggir á nefnd sem forsætisráðuneyti skipaði um mitt ár 2019. Nefndi, sem leitaði til dr. Kim Zieschang, ráðgjafa og sérfræðings í verðvísitölum, við athugun sína birti skýrslu um aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs rúmu ári síðar.

Í framhaldi af þessu hófst athugun innan Hagstofunnar á mögulegum breytingum á þeim hluta húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs sem nær til eigin húsnæðis.

„Þessi vinna hefur staðið yfir með hléum síðust tvö árin en frá miðju ári 2023 hefur verið unnið að fullum krafti við að þróa nýja aðferð sem getur komið í stað þeirrar aðferðar sem beitt hefur verið,“ segir í greinargerðinni.