Kínverska tæknisamsteypan Tencent átti sinn besta dag síðan í fyrrasumar í Kauphöllinni á mánudag eftir að tilkynnt var að útgáfudegi væntanlegs snjallsímaleiks yrði flýtt fram í seinni hluta næsta mánaðar.

Leikjarins, sem mun heita Dungeon and Figther: Origin, ku vera beðið af þónokkurri eftirvæntingu á Asíumarkaði og var fréttunum því vel tekið á markaði en hlutabréf Tencent hækkuðu um 5% í viðskiptum dagsins.

Leikurinn tilheyrir vinsælu leikjaröðinni DNF, sem hófst með útgáfu samnefnds tölvuleiks árið 2005 og telur nú yfir 850 milljón skráða notendur um allan heim.

Í því ljósi vænta greinendur þess að árlegar tekjur af hinum nýja snjallsímaleik verði um 6 milljarðar kínverskra júana, ígildi hátt í 120 milljarða íslenskra króna.