Berkshire Hathaway hagnaðist um 12,7 milljarða dali á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 35,5 milljarða dala hagnað á ársfjórðungnum á undan.

Félagið hefur í auknum mæli fært sig úr hlutabréfum í skammtíma bandarísk ríkisskuldabréf vegna hárra stýrivaxta vestanhafs.

Þannig hefur félagið selt hlutabréf að verðmæti 20 milljarða dala á fyrstu þremur mánuðum ársins en aðeins keypt bréf að verðmæti 2,7 milljarða dala á sama tíma. Þar af seldi félagið um 13% af eignarhlut sínum í Apple á fyrsta ársfjórðungi, og var eftirstandandi hlutur þess í Apple metinn á 135,4 milljarða dala á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 174,3 milljarða dala í lok árs 2023.

Á síðastliðnu ári hefur félagið hagnast um sjö milljarða dala vegna fjárfestinga í skammtíma ríkisskuldabréfum, en félagið hélt á 189 milljörðum dala í reiðufé og skammtíma skuldabréfum í lok fyrsta ársfjórðungs.