Landsvirkjun skilaði 34,5 milljóna dala hagnaði eftir skatta, eða sem nemur 4,7 milljörðum króna, á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar hagnaðist ríkisfyrirtækið um 91,6 milljóna dala á sama tímabili í fyrra og dróst hagnaður Landsvirkjunar á fyrsta ársfjórðungi því saman um 62% milli ára. Landvirkjun birti uppgjör í dag.

Stærsta skýringin fyrir lakari afkomu hjá Landsvirkjun er að gangvirðisbreytingar afleiðusamninga voru neikvæðar um 23,5 milljónir dala, eða um 3,2 milljarða króna, á tímabilinu janúar til mars 2024 en voru jákvæðar um 49,7 milljónir dala á sama tímabili árið áður.

Rekstrartekjur lækka um 18% milli ára

Rekstrartekjur Landsvirkjunar á fyrst þremur mánuðum ársins námu 143,7 milljónum dala, eða um 19,7 milljörðum króna, og drógust saman um 18% frá fyrsta fjórðungi 2023.

Rekstrarhagnaður Landsvirkjunar lækkaði um 28% milli ára og nam 80,2 milljónum dala, eða um 11 milljarða króna.

Í tilkynningu Landsvirkjunar segir að hagnaður af grunnrekstri Landsvirkjunar hafi numið 77,4 milljónum dala á fjórðungnum og minnkað um tæp 29% frá sama tímabili í fyrra.

„Erfið staða í vatnsbúskap fyrirtækisins og skerðingar sökum hennar settu nokkurn svip á afkomu Landsvirkjunar á ársfjórðungnum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

„Selt magn dróst af þeim sökum saman um 6% frá sama tíma í fyrra. Meðalverð til stórnotenda lækkaði einnig miðað við sama tímabil á síðasta ári. Lækkunina má að mestu rekja til þess að verðtenging við Nordpool-markaðinn í samningi við einn stórnotanda féll niður í lok síðasta árs.“

Landsvirkjun áréttar að fjárhagsstaða félagsins hafi aldrei verið betri. Eiginfjárhlutfall félagsins stóð í 65,9% í lok mars og skuldsetning er komin niður í 1,3x rekstrarhagnað fyrir afskriftir.