Aðalfundur Landsvirkjunar samþykkti tillögu stjórnar um 30 milljarða króna arðgreiðslu í ríkissjóð, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þegar ársreikningur fyrirtækisins var birtur í lok febrúar lagði stjórnin til að greiddur yrði út arður að fjárhæð 20 milljarðar króna. Ákveðið var í aðdraganda aðalfundar Landsvirkjunar að greiða 10 milljarða króna til viðbótar í arð til að styrkja stöðu ríkissjóðs.

„Stjórnin tók þessa ákvörðun eftir umleitan fjármála- og efnahagsráðherra í ljósi þess að árið 2023 var besta rekstrarár í tæplega 60 ára sögu Landsvirkjunar,“ segir í tilkynningunni.

„Fjárhagsstaða fyrirtækisins er því góð, auk þess sem hækkunin rúmast innan arðgreiðslustefnu Landsvirkjunar.“

Landsvirkjun hagnaðist um 209,5 milljónir dala, eða sem nemur nærri 29 milljörðum króna, á árinu 2023, sem er um 30% aukning frá fyrra ári.

Eignir Landsvirkjunar voru bókfærðar á 3.614 milljónir dala eða um 492 milljarða króna í árslok 2023. Eigið fé fyrirtækisins nam tæplega 322 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar hækkaði úr 59,3% í 65,4% milli ára og er hærra en nokkru sinni fyrr.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði við birtingu ársuppgjörs félagsins að fjárhagsstaða Landsvirkjunar hefði aldrei verið betri.