Stór hópur tekjulægri launþega á almenna vinnumarkaðnum horfir fram á verulega kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna samkvæmt stjórnarfrumvarpi um breytingar á millifærslukerfinu í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Við efri hluta millistéttarinnar og þeim barnlausa blasir hinsvegar lífskjaraskerðing.

Allt önnur kjaraþróun blasir við háskólafólki og millistéttinni almennt heldur en þeim sem samið var fyrir í stefnumarkandi kjarasamningum hinnar svokölluðu Breiðfylkingar við SA í byrjun mars. Mestur er munurinn hjá barnafólki og þeim sem skulda mikið og/eða óverðtryggt enda þangað sem þunganum í stuðningi stjórnvalda er beint.

Kjarabæturnar verða þó ekki endilega mestar hjá þeim allra lægst launuðustu fari fram sem horfir. Skuldugt barnafólk sem hingað til hefur mátt þola þónokkrar skerðingar barna- og vaxtabóta sökum tekna virðist ætla að koma hvað best út úr áðurnefndum samningum þegar tillit hefur verið tekið til aðkomu stjórnvalda.

Heimildarfólk Viðskiptablaðsins innan beggja fylkinga aðila vinnumarkaðarins lýsir nokkrum óróleika yfir stöðunni sem upp er komin hvað þetta varðar, nú þegar kjaraviðræður opinbera vinnumarkaðarins eru í startholunum.

BHM var sagt hafa átt þátt í samtalinu við fulltrúa hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, þegar þau sömdu við aðila vinnumarkaðarins um myndarlega aðkomu sína að kjarasamningum sem lýst hefur verið sem hóflegum og til þess föllnum að stuðla að hraðri hjöðnun verðbólgunnar, til að unnt verði að lækka vexti sem fyrst.

Hugsunin átti að vera sú að tryggja að BHM gæti fellt sig við útkomuna og fylgt þeirri launastefnu sem mótuð var. Formaður BHM, Kolbrún Halldórsdóttir, hefur hins vegar ekki hljómað að öllu leyti sátt við ætlað hlutskipti sinna umbjóðenda í kjölfar samninganna.

Faðmur bótakerfisins opnaður fyrir millistéttinni

Frumvarp um lagabreytingar sem uppfylla eiga skuldbindingar ríkisins í þessum efnum hefur nú verið lagt fyrir Alþingi og því hægt að leggja þær breytingar við beinar launahækkanir áðurnefndrar launastefnu og máta við ólíka tekjuhópa.

Þær breytingar á millifærslukerfunum sem um ræðir eru tvær. Annarsvegar stendur til að auka grunnfjárhæð barnabóta lítillega, hækka skerðingarmörk nokkuð og lækka hlutfallslega tekjuskerðingu um fimmtung, úr 5% í 4%.

Sú breyting gagnast helst þeim tekjuhóp sem kalla mætti neðri millistétt – par með á bilinu 500-700 þúsund í brúttólaun hvort eða einstæðingur með 750-1.250 þúsund. Með öðrum orðum þeir sem hafa nógu háar tekjur til að hafa lítið fengið af slíkum bótum hingað til, en þó ekki svo háar að þær skerðist niður í ekki neitt þrátt fyrir breytingarnar.

Hinsvegar stendur til að greiða þeim sem skulda í eigin íbúðarhúsnæði svokallaðan „sérstakan vaxtastuðning“ fyrir síðasta ár, en sú fjárhæð fer beint inn á höfuðstól lánsins. Stofn þeirrar greiðslu eru 23% af vaxtagjöldum síðasta árs, en hún getur þó að hámarki orðið 150 þúsund fyrir einstæðing, 200 til einstæðs foreldris eða 250 til hjóna/sambúðarfólks. Eigna- og tekjuskerðingar dragast þar að auki frá stofninum rétt eins og með hefðbundnar vaxtabætur.

Varla þarf að fjölyrða um þá miklu vaxtabyrði sem óverðtryggð lán hafa borið nýverið – í það minnsta að nafninu til – eftir að vextir hækkuðu, þótt mikil verðbólga hafi á móti skilað þeim sem þau skulda allverulegri eignamyndun. Óverðtryggðir íbúðalánavextir hafa verið um og yfir 10% síðastliðið ár, sem þýðir að vaxtabótastofn 40 milljóna króna láns yrði um 920 þúsund krónur.

Fjármagnskostnaður verðtryggðra lána hefur hins vegar ekki verið álitinn jafn bótaverður af ráðamönnum. Beinir, greiddir vextir mynda vitanlega stofn til vaxtabóta, sem og verðbótahluti afborgunar höfuðstóls, en þar með er það upptalið. Verðbætur sem leggjast á höfuðstól eru því ekki gjaldgengar til stuðnings.

Af eldri verðtryggðum lánum er þorri höfuðstólsgreiðslunnar farinn að samanstanda af verðbótum og því hugsanlega eftir meiru að slægjast hvað það varðar, en á móti hefur fasteignaverð hækkað svo mikið umfram verðlag síðustu áratugi að næsta víst má telja að eignastaða þeirra sem þau skulda útiloki þá frá vaxtabótakerfinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í held hér.