Kanadíski stórleikarinn Kiefer Sutherland mun byrja að selja kanadískt viskí á Bretlandseyjum. Viskíið ber heitið Red Bank en leikarinn framleiðir það í samstarfi við Gary Briggs, Shawn Hiscott og Rob Steele.

Vörumerkið kom á markað á síðasta ári og hefur vaxið jafnt og þétt í Kanada og í kjölfarið ákvað teymið að hefja útflutning á viskíinu.

Sutherland, sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Jack Bauer í þáttunum 24, segist stoltur af kanadíska viskíinu sínu og er hæstánægður með að flytja það yfir á Bretlandsmarkað.

„Það sem mér finnst svo heillandi við Red Bank og þetta ferli er stoltið sem Kanadamenn hafa af landi sínu. Ég er fæddur í Englandi en ég ólst upp í Kanada og eitt af því sem ég hef dáðst að við Kanada er fjölbreytileikinn, ekki bara þegar kemur að landslagi og menningu, heldur líka fólkinu,“ segir leikarinn.

Samkvæmt tímaritinu Decanter mun sala á Red Bank hefjast síðar í þessum mánuði og verður fáanlegt á vefsíðunni Master of Malt fyrir tæpar 8.500 krónur. Viskíið er sagt bjóða upp á keim af eikarkryddi, aldinávöxtum, kryddjurtum og karamellu.