Lilja Dögg Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Almannaróms, miðstöðvar um máltækni. Hún tekur við starfinu þann 1. maí næstkomandi.

Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynning þar sem segir að Almannarómur hafi það hlutverk að tryggja að íslensk tunga standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum. Til að fylgja íslensku inn í framtíðina sé unnið samkvæmt metnaðarfullri máltækniáætlun stjórnvalda og stofnunin sjái um framkvæmd hennar.

„Máltækni er framlína tækniþróunar á heimsvísu í dag sem birtist til dæmis í því hvernig við getum orðið talað við tæknina og hún við okkur. Markmið Almannaróms er að tryggja að íslenskan verði ekki skilin eftir í þeirri gríðarhröðu framþróun sem nú á sér stað á þessu sviði. Þetta er meiri háttar hagsmuna- og jafnréttismál fyrir alla Íslendinga og því mikill heiður að vera treyst fyrir þessu mikilvæga verkefni,“ segir Lilja Dögg.

Lilja Dögg hefur að baki víðtæka reynslu úr heimi tækni og stefnumótunar. Sem sérfræðingur í forsætisráðuneytinu leiddi hún stefnumótun á sviði gervigreindar og fór meðal annars fyrir ritun stefnu Íslands um gervigreind. Þá tók hún nýverið þátt í mótun máltækniáætlunar 2.0 sem fulltrúi í stýrihópi menningar- og viðskiptaráðherra. Lilja hefur einnig sinnt fjölbreyttum verkefnum á hinu alþjóðlega sviði. Hún bjó í Bandaríkjunum í tæpan áratug og gegndi á þeim tíma meðal annars stjórnendastöðum hjá sprotahraðlinum Redstar Ventures og hugbúnaðarfyrirtækinu Burning Glass Technologies. Á Íslandi starfaði hún nú síðast sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá íslensk-japanska fyrirtækinu Takanawa og situr einnig í stjórn Brynju, leigufélags ÖBÍ.

Lilja Dögg lauk BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2011 og MBA prófi frá Harvard háskóla í Bandaríkjunum árið 2015.

„Við í stjórn Almannaróms erum stolt af að hafa fengið Lilju Dögg til liðs við okkur. Hún þekkir vel til starfa Almannaróms og hefur djúpa þekkingu á tækniþróun og gervigreind sem mun án efa efla sókn íslenskunnar í tækniheimum, jafnt innanlands sem utan,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður stjórnar Almannaróms.