Kópavogsbær hefur opnað fyrir tilboð í lóðir í nýju hverfi sem ber heitið Vatnsendahvarf. Í fyrsta áfanga verður úthlutað sex lóðum fyrir fjölbýlishús.

Í hverfinu er gert ráð fyrir 500 íbúðum í fjölbýli, par- og raðhús auk einbýli en stefnt er að því að úthluta öllum lóðum á árinu í nokkrum áföngum.

„Það er gríðarlega spennandi að fá nýtt hverfi í Kópavoginn og við finnum að það er mikill áhugi, enda góð staðsetning á frábærum útsýnisstað í nálægð við mikla náttúrufegurð. Áhersla er lögð á fallega og umhverfisvæna byggð í Vatnsendahvarfi með góðum samgöngutengingum fyrir alla ferðamáta,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Hverfið stendur á Vatnsendahæð og afmarkast af Álfkonuhvarfi, Turnahvarfi, Kleifakór og Arnarnesvegi. Ásdís segir jafnframt að reistur verði leikskóli og grunnskóli fyrir 1. til 4. bekk í þessu nýja hverfi.