Hluta­bréfa­verð Tesla hefur hækkað um 11% í morgun í fram­virkum samningum fyrir lokuðum markaði.

Ef fram fer sem horfir opnar gengið í um 164 dölum á eftir en tölu­verð við­skipti hafa verið með bréf raf­bíla­fram­leiðandans eftir um­mæli Elon Musk for­stjóra á fjár­festa­kynningu í gær.

Musk sagði fjár­festum að fyrir­tækið væri að hraða fram­leiðslu á nýjum týpum af raf­bílum, þar á meðal raf­bíla sem yrði á mjög við­ráðan­legu verði.

Mikið verð­stríð hefur átt sér stað undan­farin misseri meðal raf­bíla­fram­leiðanda, sér­stak­lega vegna mikillar sam­keppni frá kín­verskum fyrir­tækjum eins og BYD og Nio. Kín­verski snjall­síma­fram­leiðandinn Xia­omi kynnti einnig sinn fyrsta raf­bíl í síðasta mánuði.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal voru um­mælin já­kvæð teikn fyrir fjár­festa en Tesla, stærsti bíla­fram­leiðandi heims að markaðs­virði, hefur átt erfitt upp­dráttar á árinu.

Hluta­bréfa­verð bíla­fram­leiðandans hefur lækkað um 42% það sem af er ári en hagnaður fé­lagsins dróst veru­lega saman á fyrsta fjórðungi þessar árs og hefur ekki verið minni síðan 2021.

Á fjár­festa­kynningunni fór Musk einnig yfir á­ætlanir Tesla í sjálfa­kandi bílum en stefnt er að því að hefja fram­leiðslu á „ró­bó­taxa“ á árinu.

Hvatti fjárfesta sem trúa ekki á Tesla að horfa annað

Um er að ræða flota af sjálfa­kandi bif­reiðum sem neyt­endur geta stokkið í en á­ætlað er að ferðin muni kosta jafn mikið og strætómiði.

Á kynningunni í gær sagði Musk að fyrir­tækið væri að í­huga nafnið „Cyber­cab“ á bílana því hug­búnaðar­upp­færsla í fyrra stór­bætti sjálfsaksturs­getu Tesla-bif­reiða.

„Ef ein­hver hefur ekki trú á að Tesla muni leysa sjálfsaksturs­vandann þá held ég þeir ættu að fjár­festa í öðrum fyrir­tækjum,“ sagði Musk við fjár­festa í gær.

Hagnaður Tesla á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 1,1 milljörðum Banda­ríkja­dala sem er um 55% minni hagnaður en á sama tíma­bili í fyrra.

Tekjur drógust saman um 9% milli tíma­bila og námu 21,3 milljörðum dala í ár.