Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur enn og aftur lækkað verðin sín á nokkrum af stærstu mörkuðum fyrirtækisins, þar á meðal í Bandaríkjunum, Kína og Þýskalandi. Ákvörðunin kemur í kjölfar minnkandi sölu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Mikið verðstríð hefur átt sér stað undanfarin misseri meðal rafbílaframleiðanda, sérstaklega vegna mikillar samkeppni frá kínverskum fyrirtækjum eins og BYD og Nio. Kínverski snjallsímaframleiðandinn Xiaomi kynnti einnig sinn fyrsta rafbíl í síðasta mánuði.

Samkvæmt fréttamiðlinum BBC áætlar Tesla að birta ársuppgjör sitt eftir lokun markaða í dag en í færslu á samfélagsmiðlinum X segir Elon Musk að verð á rafbílum fyrirtækisins þurfi að breytast í samræmi við eftirspurn.

Verð á nýjum Model 3 í Kína og Model Y, Model X og Model S hafa nú lækkað um tæplega tvö þúsund dali og hafa verð einnig lækkað í Evrópu, Miðausturlöndunum og Afríku.

Í síðustu viku tilkynnti Tesla að fyrirtækið myndi segja upp rúmlega 10% af starfsfólki sínu á heimsvísu og rétt fyrir helgi neyddist það til að innkalla þúsundir nýrra Cybertruck-bíla af öryggisástæðum.