Kaupfélag Skagfirðinga (KS) skilaði 5,5 milljarða króna hagnaði á síðasta ári. Til samanburðar hagnaðist kaupfélagið um 1,7 milljarða króna á árinu 2022. Eignir kaupfélagsins voru bókfærðar á 88,6 milljarða í árslok 2023 og eigið fé nam 58,6 milljörðum.

Tekjur KS-samstæðunnar jukust um 4% milli ára og námu 52,6 milljörðum króna á árinu 2023. Rekstrargjöld jukust um 3,7% og námu 44,3 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 4,1% milli ára og nam 8,4 milljörðum.

Ársverk hjá kaupfélaginu sjálfu voru 180 en hjá samstæðunni í heild voru 958 ársverk í fyrra.

Starfsemi KS er umfangsmikil og hefur kaupfélagið um langa hríð verið einn helsti atvinnurekandi Skagafjarðar og nágrennis. Stærsta eign kaupfélagsins er FISK-Seafood sem rekur útgerðar- og fiskvinnslustarfsemi á Sauðárkróki og í Grundarfirði og gerir út fimm skip.

KS rekur einnig mjólkur- og kjötafurðarstöð, bifreiða- og vélaverkstæði, byggingavöruverslun og Skagfirðingabúð, allt staðsett á Sauðárkróki. Þar að auki rekur félagið kaupfélag á Hofsósi og Ketilási. Meðal annarra eigna er 20% hlutur í Mjólkursamsölunni og 79% hlutur í Fóðurblöndunni.

Eignarhluturinn í VSV hækkaði um 3 milljarða

Stærsta ástæðan fyrir því að afkoma Kaupfélags Skagfirðinga sveiflast jafn mikið milli ára og raun ber vitni er að gerð var leiðrétting á þýðingarmun í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum (VSV), sem KS á 32,9% hlut í. Það hafði þau áhrif að eignarhluturinn hækkaði um tæplega 1,8 milljarða að virði.

Bókfært verð þriðjungshlutar KS í Vinnslustöðinni hækkaði um 3 milljarða úr 10,8 í 13,8 milljarða á milli ára.

Þá hafði veruleg lækkun á hlutabréfaverði Iceland Seafood International árið 2022 neikvæð áhrif á rekstrarreikning KS það árið upp á 2,4 milljarða króna.