Hagfræðideild Landsbankans spáir því í nýrri hagsjá að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,38% á milli apríl og maí sem hefði í för með sér að verðbólga myndi haldast óbreytt í 6,0%. Hagfræðideildin gerir ráð fyrir að verðbólga verði á bilinu 5,8-6,0% út ágúst.

Húsnæðisverð og flugfargjöld hafi mestu áhrifin

Hvað varðar næstu verðbólgumælingu þá spáir Landsbankinn því að húsnæðiskostnaður muni hafa mestu áhrif til hækkunar á vísitölunni.

Í verðbólguspánni er gert ráð fyrir að markaðsverð húsnæðis hækki um 0,6% milli mánaða og áhrif vaxtabreytinga verði 0,5%. Alls er því gert ráð fyrir að undirliðurinn reiknuð húsaleiga hækki um 1,1% milli mánaða.

Þá er spáð því að flugfargjöld til útlanda munu hafa mest áhrif á vísitöluna til lækkunar, en í sitthvora áttina. Almennt sé nokkuð skýr árstíðatengd breyting á flugfargjöldum til útlanda og lækka þau gjarnan í maí. Hagfræðideild bankans spáir því að flugfargjöld lækki um 5,6% milli mánaða.

„Gangi spáin eftir verður 10% ódýrara að fljúga til útlanda í maí í ár en í fyrra, sem er svipaður munur og hefur verið það sem af er ári.“