Umræða um ástartungumálin fimm hefur verið áberandi hjá yngri kynslóðum síðustu ár og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Fólk talar opinskátt um ástartungumál sín í sjónvarpi og hlaðvörpum og margir virðast mjög meðvitaðir um þetta fyrirbæri. En hvað er ástartungumál og hvaðan kemur það?

Hugtakið kemur frá bandaríska rithöfundinum Gary Chapman, en hann gaf út bókina The Five Love Languages fyrir rúmum tuttugu árum þar sem hann skilgreinir fimm ástartungumál sem lýsa því hvernig einstaklingar tjá og þiggja ást og umhyggju.

Þegar fólk talar ekki sama ástarmál og maki þeirra, segir Chapman, að það geti skapað áskoranir í því að tengjast og einstaklingar geti á endanum fundið fyrir því að þeir séu ekki elskaðir. Það sé þó hægt að leysa með því að læra að tala ástarmál maka, sem geti hjálpað sambandinu að vaxa, ástin verði dýpri og samskiptin betri.

Samkvæmt Chapman eiga öll ástartungumálin fimm, sinn stað í samböndum, en hver einstaklingur hafi eitt aðalástartungumál. Áslaug Kristjánsdóttir, hjúkrunar- og kynfræðingur og höfundur bókarinnar Lífið er kynlíf. Handbók kynfræðings um langtímasambönd, vinnur mikið með pörum sem leita til hennar til þess að bæta sambandið. Við fengum hana til að svara nokkrum spurningum um ástartungumálin og hvort eitthvert vit sé í þessari greiningu á ástartjáningu.

Hvað finnst þér um ástartungumálin fimm og hversu algengt það er orðið að fólk flokki sig eftir þeim?

„Ég hef heyrt það í minni vinnu að fólki finnst gott að geta flokkað sig eftir þessum ástartungumálum. Þau auðvelda fólki oft að tala saman um hvernig það vill vera elskað og hvernig það elskar. Það er jákvætt í sjálfu sér að nota þau í þeim tilgangi að skilja að ástin er allskonar. En þessi ástartungumál eru ekki flokkunarkerfi í sjálfu sér.

Ég veit ekki hvort tilgangurinn með því að setja þau fram hafi verið til að draga fólk í dilka. Ég held að þau hafi frekar verið sett fram til að hjálpa fólki að átta sig á hvað ástin getur verið flókin og setja samtal um hana í þægilegan búning. Ég skil að þau hafi náð vinsældum því þau eru auðskiljanleg og vel sett fram að mestu leyti.“

Viðtalið við Áslaugu er að finna í blaðinu Eftir vinnu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.