Fraktflugfélagið Bláfugl, sem hefur starfað undir heitinu Bluebird Nordic, hefur aflýst öllum flugferðum sínum.

Búist er við að starfsemi félagsins verði formlega hætt í vikunni, að því er segir í frétt sem fréttamiðilinn ch-aviation birti í gær. Gert er ráð fyrir að litháíska móðurfélagið, Avia Solutions Group (ASG), sendi frá á sér tilkynningu innan tíðar um að starfsemi Bláfugls verði lögð niður.

Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn á forsvarsmenn Bláfugls í morgun en hefur ekki enn borist svar. Heimildir blaðsins herma að unnið hafi verið að því að leggja niður Bláfugl, sem er með lögheimili að Urðarhvarfi 6. Væntingar eru um að Bláfugl skili inn flugrekstrarleyfi sínu á næstu dögum.

Talið er að margar vélar í flota Bláfugls verði færðar til annarra flugfélaga í samstæðu AGS, þar á meðal til slóvakíska fraktflugfélagsins AirExplore.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Bláfugl í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast ítarlega útgáfu af fréttinni, þar sem saga Bláfugls er stuttlega rakin, hér.