Warren Buffett hefur áhyggjur af þróun gervigreindar og ber hana saman við þróun kjarnorkuvopna. Þetta kom fram á ársfundi fyrirtækjasamstæðunnar Berkshire Hathaway sem haldinn var í Omaha í Nebraskafylki í Bandaríkjunum í gær.

Buffett, sem hefur gegnt stöðu forstjóra Berkshire frá árinu 1970, viðurkennir þó að hann viti lítið um undirliggjandi tækni gervigreindar, en segir framþróun djúpfölsunar (e. deepfake) meðal ástæðna fyrir áhyggjum hans.

Nýlega hefði hann séð myndband af sjálfum sér, sem búið var til af gervigreind. Meira að segja fjölskylda hans hefði átt í erfiðleikum með að bera grein á djúpfölsunina, svo sannfærandi og raunverulegt hefði myndbandið verið.

Buffett spáir því að djúpfölsun muni m.a. auðvelda glæpamönnum að svíkja pening frá fólki með því að líkja eftir ættingjum þeirra.

„Þróun kjarnorkuvopna opnaði öskju Pandóru. Það sama á viở um gervigreind, sem er nú þegar komin úr öskjunni að hluta til.“

Greg Abel, arftaki Buffett hjá Berkshire Hathaway, er bjartsýnni á þróun tækninnar. Hann sagði á ársfundinum að sum dótturfélaga fyrirtækisins væru nú þegar byrjuð að nýta tæknina til að auka skilvirkni.