Ég hef stundað útivist af kappi frá fermingaraldri. Eftir að hafa verið í sveit á sumrin við Heklurætur fékk ég útivistarbakteríuna og hef gengið um flestar óbyggðir landsins. Eins hef ég tekið að mér leiðsögn og var framkvæmdastjóri ferðafélagsins Útivistar eftir að hafa lokið háskólanámi. Náttúran er mér mjög hugleikin og hvernig er hægt að ganga sem best um hana. Ég skrifaði bók árið 2013 „Norðurslóðasókn“ um hvernig stefnumörkun til framtíðar gæti bætt hag lands og þjóðar.

Ekkert svæði heimsins getur státað af ábyrgari nýtingu auðlinda en norðurslóðir. Það er sama hvort horft sé til nýtingar sjávarfangs, skóga, jarða, náma, fallvatna, jarðhita eða jafnvel olíu og gass þá kemst ekkert svæði eða heimsálfa nálægt árangri þeirra svæða sem teljast til norðurslóða.

Þegar kjörorð heimsins er sjálfbærni ber að líta til þess hvar sé hægt að gera meira fyrir minna. Raunveruleg sjálfbærni felst í því að gera hlutina á hagkvæmari hátt, en ekki í sýndarmennsku og dyggðaflöggun þar sem verðmætum er sóað í óhagkvæmar „lausnir” sem engu skila í raun. Það er ljóst að ekkert svæði skákar okkur og okkar næstu nágrönnum í þeim efnum. Það blasir því við að leiðin til að bæta umgengni mannkyns við náttúruna er að gera meira hér og minna annars staðar.

Árið 2008 fer í sögubækurnar, ekki vegna óróa á fjármálamörkuðum, enda gerðist það þá í fyrsta skipti að fleirri bjuggu í þéttbýli en dreifbýli. Borgir gera meira fyrir minna, þær eru sjálfbærari en dreifðar byggðir því stærðarhagkvæmnin er gríðarleg í innviðum og allri þjónustu. Sumir töldu að árið 2008 væri vendipunktur og lífskjör færu versnandi. Síðan leið áratugur og árið 2018 hafði 1 milljarður manna færst úr lágstétt í miðstétt. Fram til ársins 2030 munu um 2 milljarðar til viðbótar færast úr lágstétt í miðstétt. Þessi jákvæða þróun heldur áfram þó að mannkynið virðist vera að ná hámarki í fjölda í kringum 8 milljarða.

Og svo er til fólk sem segir að heimurinn fari versnandi og betra sé að hverfa aftur til fyrri hátta. Slíkar hugmyndir eru hrein mannvonska.

Sóun í nafni Landverndar

Fyrrverandi umhverfisráðherra sem einnig er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar fór með tillögur á COP26, umhverfisráðstefnuna í Glasgow fyrir rúmum 2 árum. Þar voru kynntar 5 mögulegar sviðsmyndir fyrir Ísland til að draga úr kolefnisspori landsins. Flestar gengu þær útá að slökkva á stóriðju, hætta að rækta búfé og að landsmenn yrðu grænmetisætur. Í umboði hverra voru þessar fráleitu tillögur kynntar?

Sami fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar skrifaði grein í Fréttblaðið árið 2013 um að Suðurnesjalína 2 ætti engan rétt á sér og það væri fyrirsláttur að segja að hún væri til að auka öryggi íbúa. Í ljósi núverandi ástands og stórkostlegrar hættu útaf eldsumbrotum var þessi grein í besta falli óheppileg. En hún er meira en það því á þessum tíma lágu fyrir spár jarðfræðinga um möguleg eldgos eins og þau hafa nú raungerst hjá Sundhnúkum. Til að kóróna vitleysuna lagði framkvæmdastjórinn fyrrverandi til að jarðstrengur yrði valinn á Reykjanesið.

En þetta eru ekki einu línurnar sem Landvernd hefur náð að fresta eða stöðva. Nú er verið að keyra rafvæddar fiskibræðslur víða um land á olíu, vegna þess að Landsnet hefur ekki getað aukið flutningsgetu á loftlínum sínum en líka vegna þess að orkuöflun hefur verið í lamasessi. Allt í boði furðuhugmyndafræði Landverndar.

Þar er verið að veiða og vinna jafn mikinn afla og fyrir 30 árum síðan, sem skapar mun meiri tekjur, en með um helming olíunotkunar.
Þar er verið að veiða og vinna jafn mikinn afla og fyrir 30 árum síðan, sem skapar mun meiri tekjur, en með um helming olíunotkunar.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Er Ísland eyland?

Framleiðsla áls var lengi vel stærsti einstaki notandi rafmagns í atvinnuskyni á heimsvísu. Það er kominn um áratugur síðan gagnaver tóku fram úr þeirri notkun. Uppbygging gagnavera hefur verið hröð og sem dæmi þá voru þau gögn sem urðu til í slíkum verum árin 2019 og 2020 meiri en höfðu orðið til í allri mannkynnssögunni til samans fyrir það. En það var fyrir tíma Chat GPT og gervigreindar sem nú útheimtir að mati International Energy Agency allt að tvöföldun gagnavera í rafmagnsnotkun frá deginum í dag fram til ársloka 2026.

Talsvert hefur verið rætt um útflutning orku um sæstreng síðustu 40 ár á Íslandi. Með tilkomu gagnavera er hægt að færa gögn um ljósleiðara sem kosta 1% af fjárfestingu sæstrengja fyrir rafmagn því tölvurnar eru einfaldlega staðsettar nær orkuppsprettunni og svo eru gögnin send út um ljósleiðara. Og það sem meira er þá eru ljósleiðararnir til staðar á milli Íslands og Evrópu og einungis verið að nota innan við 1/20 af burðargetu þeirra.

Með gervigreind er verið að ræða um gögn þar sem tölvur reikna í margar mínútur, klukkustundir eða vikur, þannig að hvort að niðurstaðan berist á sekúndubroti á ekki lengur við, einsog var með t.d. streymisþjónustur eða samfélagsmiðla.

Það er því ekki rétt sem stundum hefur verið haldið fram að Ísland sé aðskilinn orkumarkaður frá umheiminum. Við flytjum óbeint út orku í formi álframleiðslu og aðra stóriðju og nú eru gagnaver að mikilli uppbyggingu, en rafmagn alþjóðlega er framleitt að langstærstu leyti með kolum, olíu og gasi. Það er því fráleitt að segja að það sem sé gert á Íslandi í umhverfis- eða orkumálum hafi engin áhrif á heiminn.

Raunveruleg umhverfisvernd

Ísland er hvað lengst komið í öllum heiminum í orkuskiptum. Einhverra hluta vegna ákváðu embættismenn að telja ekki með hitaveituna, sem er stærsti mengunarvaldur heims en hér nánast öll græn, þegar við skuldbundum okkur til að minnka kolefnisfótsporið í Kyoto 1992. Það voru einstök mistök sem hafa kostað land og þjóð gríðarlega fjármuni. En það gerir okkur ekki að umhverfissóðum, nema síður sé.

Engin atvinnugrein á Íslandi hefur minnkað kolefnisspor sitt jafn mikið og sjávarútvegurinn. Þar er verið að veiða og vinna jafn mikinn afla og fyrir 30 árum síðan, sem skapar mun meiri tekjur, en með um helming olíunotkunar. Talandi um að gera meira fyrir minna.

Í dag er gríðarleg sóun fólgin í því að hafa landsnetið svo vanbúið, við það tapast orka sem er á við Búrfellsvirkjun á hverju ári.
Í dag er gríðarleg sóun fólgin í því að hafa landsnetið svo vanbúið, við það tapast orka sem er á við Búrfellsvirkjun á hverju ári.

Miðað við spár Orkustofnunar þarf að tvöfalda framleiðslu á rafmagni hér á landi á næsta aldarfjórðungi. Alþjóðlega þarf að auka rafmagnsframleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum meira á sama tíma. Það er því gott fyrir okkur og gott fyrir heiminn ef orkuöflun eykst á Íslandi, það blasir við.

Til að auka framleiðslu hreinnar orku þarf að nýta arðvænlegustu verkefnin sem í boði eru. Það eru ekki sjávarfallavirkjanir eða vindorkuver útá sjó einsog málin standa. Hér á landi er nóg af hagkvæmum kostum í formi vatnsafls, jarðvarma og vindafls á landi.

Það þarf að hringtengja svæði svo að hægt sé að tryggja húshitun og rafmagn við náttúruhamfarir. Eins þarf að treysta landsnetið sem heild til að flutningsgetan ráði við að senda orkuna mismunandi leiðir. Í dag er gríðarleg sóun fólgin í því að hafa landsnetið svo vanbúið, við það tapast orka sem er á við Búrfellsvirkjun á hverju ári.

Regluverkið sem klastrað hefur verið saman hér á landi er einstaklega óskilvirkt, allt að óskum Landverndar. Það þarf að einfalda. Innan Evrópusambandsins, sem er nú ekki þekkt fyrir skilvirkni, er hámarkstími til afgreiðslu leyfis 2 ár. Annars staðar er það víða 1 ár eða skemur.

Það er ekki umhverfisvernd að hamla nýtingu grænnar orku, sem bara leiðir af sér aukna notkun jarðefnaeldsneytis, það er umhverfisvernd fyrir okkur og allan heiminn að gera átak í grænni orkuöflun.

Höfundur er hagfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri ferðafélagsins Útivistar.

Greinin birtist í sérblaði Viðskiptablaðsins um ársfund SFS.