Danól ehf., dóttur­fé­lag Öl­gerðarinnar, sem stefndi íslenska ríkinu á þriðju­daginn fyrir að hafa leynt mikilvægum gögnum bæði á stjórn­sýslu­stigi og fyrir Landsrétti, segir í stefnu sinni toll­gæslu­stjóra vera van­hæfan í málinu.

Lands­réttur dæmdi ís­lenska ríkinu í hag eftir ára­langar deilur sem hófust er Bændasamtök Íslands og Mjólkursamsalan sóttu að stjórn­völdum um að pítsuosturinn, Festino IQF Mozzarella Pizza Mix, yrði flokkaður í 4. kafla tollskrárinnar, sem ber háa tolla, bæði magn- og verð­tolla, í stað þess að flokkast í 21. kafla, sem ber enga tolla.

Í tölvu­póst­sam­skiptum milli Skattsins, fjár­mála­ráðu­neytisins, lög­manns MS og toll­gæslu­stjóra sem er að finna í dóm­skjölum má sjá á­huga og þrýsting sam­keppnis- og hags­muna­aðila á toll­skráningunni.

Í einum tölvu­póstinum stað­festir toll­gæslu­stjóri við lög­menn MS, löngu áður en bindandi álit skattsins er gefið út, að pítsu­osturinn um­ræddi verði settur undir 4. kafla.

Stað­festir toll­gæslu­stjóri einnig við sam­keppnis­aðila Danól að Skatturinn muni endur­skoða sendingar sex ár aftur í tímann. Er það af­staða Danól að toll­gæslu­stjóri hafi með þessari yfir­lýsingu, til sam­keppnis­aðila fyrir­tækisins, gert sig van­hæfan til töku þeirrar á­kvörðunar sem krafist er ó­gildingar á.

Í tölvu­pósti Sigurðar Skúla Bergs­sonar toll­gæslu­stjóra til lög­manns MS þann 23. júní 2020 segir: „Tolla­yfir­völd geta stað­fest að „Mozzarella pizza mix“ mun, í sam­ræmi við álit starfs­manna fram­kvæmdar­stjórnar ESB, verða flokkað í 4. kafla toll­skrár en hvorki 19. né 21. kafla. […] . Loks mun endur­skoðunar­deild Skattsins at­huga hvort vörur sem ættu að vera í 4. kafla í sam­ræmi við ofan­greind sjónar­mið hafi á sl. sex árum verið flokkaðar í aðra kafla toll­skrár.“

Hafa ber hér í huga að á þeim tíma sem toll­gæslu­stjóri gefur um­rædda yfir­lýsingu til lög­manna MS hefur Evrópu­sam­bandið leið­rétt hina meintu af­stöðu sem kom fram í pósti Alexanders Blaha og segir Danól því að toll­gæslu­stjóri sé ekki í „góðri trú hvað þetta varðar“. Sem fyrr segir hafnaði Endur­upp­töku­dómur að taka málið upp að nýju en Héraðs­dómur Reykja­víkur þing­festi stefnu Danól gegn ís­lenska ríkinu sem fyrr segir á þriðju­daginn.

Á­skrif­endur geta lesið lengri um­fjöllun Við­skipta­blaðsins um málið hér.