Danól ehf., dóttur­fé­lag Öl­gerðarinnar, stefndi ís­lenska ríkinu á þriðju­daginn fyrir m. a. að hafa leynt mikil­vægum gögnum bæði á stjórn­sýslu­stigi og fyrir Lands­rétti.

Lands­réttur dæmdi ís­lenska ríkinu í hag eftir ára­langar deilur sem hófust er Bænda­sam­tök Ís­lands og Mjólkur­sam­salan sóttu að stjórn­völdum um að pítsu­osturinn, Festino IQF Mozzarella Pizza Mix, yrði flokkaður í 4. kafla toll­skrárinnar, sem ber háa tolla, bæði magn- og verð­tolla, í stað þess að flokkast í 21. kafla, sem ber enga tolla.

Um­rædd gögn sem aldrei litu dagsins ljós í mála­ferlinu voru meðal annars af­staða Evrópu­sam­bandsins og Al­þjóða­tolla­stofnunarinnar (WCO) um hvernig eigi að flokka vöruna en ESB og WCO eru sam­mála toll­flokkun Danól á vörunni.

Í að­draganda á­kvörðunar Skattsins í nóvember 2020 um á­lagningu á vöruna var stofnunin í nokkrum tölvu­póst­sam­skiptum við Alexander Blaha, starfs­mann ESB.

Hinn 4. júní 2020 svaraði hann fyrir­spurn Skattsins um um­rædda vöru og sagði hann Skattinum af hverju hann teldi að varan ætti að falla undir 4. kafla (með háum tollum) fremur en 21. kafla (án tolla).

Tölvu­póstur Blaha hafði mikil á­hrif á stjórn­sýslu­fram­kvæmd hér­lendis en skömmu áður var búið að búa til nýtt tolla­númer fyrir pítsu­ostinn sem var undir 21. kafla og var hann flokkaður sem „Mat­væli að uppi­stöðu úr vörum úr nr. 0405 og nr. 0406 sem inni­halda jurta­olíu, t. d. ostur.“

Sú aug­lýsing var síðan aftur­kölluð eftir tölvu­póst Blaha en þegar Fé­lag at­vinnu­rek­enda spurðist fyrir um á­stæður þess segir í tölvu­pósti frá fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytinu „að það var um­ræddur tölvu­póstur frá Alexander Blaha til toll­yfir­valda dags. 4. júní sl. sem ráðu­neytið byggði sjónar­mið sín á varðandi toll­flokkunina“.

Í beiðni Danól um endur­upp­töku á málinu fyrir endur­upp­töku­dómi segir „að það liggur fyrir að sú aug­lýsing hafi verið aftur­kölluð vegna af­stöðu Alexander Blaha, sem var „svar ESB.“

„Nú liggur hins vegar fyrir að ís­lenska ríkið leyndi mikil­vægum gögnum í þessu sam­hengi og sýnir það að fram­kvæmd þess var byggð á röngum for­sendum. Um er að ræða póst sem barst Skattinum 16. júní 2020, eftir að honum voru veittar frekari upp­lýsingar. Í nefndum tölvu­pósti dregur Blaha úr sinni fyrri af­stöðu, sem hann hafði áður sent Skattinum hinn 4. júní 2020, um að vöruna skyldi fella undir 4. kafla.“

Skatturinn lagði ekki fram síðari póst Blaha þar sem hann dró úr fyrri af­stöðu sinni. Blaha hvatti jafn­framt til þess að ís­lensk yfir­völd myndu leitast eftir því að fá form­lega af­stöðu ESB en það var aldrei og var fyrsti tölvu­póstur hans skráður sem „svar ESB.“

Á­skrif­endur geta lesið um­fjöllun Við­skipta­blaðsins hér en þar er farið yfir þau gögn sem litu ekki dagsins ljós í Lands­rétti. Þá sýna tölvu­póstar Bænda­sam­taka Ís­lands og lög­manna MS til Skattsins og fjár­mála­ráðu­neytisins einnig hvernig þrýst var á toll­skrár­breytinguna.