Kristian Vakkuri, samskiptafulltrúi finnska varnamálaráðuneytisins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að Finnar séu að eyða umfram þeim 2% og 20% kröfum sem NATO-meðlimir hafa skuldbundið sig við.

Öll ríki innan NATO samþykkja að leggja að minnsta kosti 2% af þjóðarframleiðslu sinni til varnarmála og minnst 20% af varnarútgjöldum þeirra ættu að fara í þróun á nýjum vopnum og tækni.

„Finnland skuldbindur sig við þær kröfur sem NATO setur og fjárfestum við í varnarmál í samræmi við það. Við höfum þegar greitt fyrir nýjar F-35 orrustuþotur og herskip og mun þessi þróun halda áfram næstu árin,“ segir Kristian.

Hann segir að Finnar hafi einnig fjárfest í nýju loftvarnarkerfi sem getur hæft flugvélar og önnur skotkmörk úr mikilli hæð. Búnaður landhersins hefur einnig verið uppfærður og munu vopnasendingar til Úkraínu halda áfram.

Finnland og Svíþjóð sóttu um aðild að NATO í maí 2022 eftir innrás Rússa í Úkraínu og gekk Finnland formlega í sambandið 4. apríl 2023. Finnar deila 1.340 kílómetra löngum landamærum við Rússland og hafa lengi þurft að glíma við þjösnaskap nágranna sinna.

„Markmið okkar er að styrkja fælingarmátt NATO og varnir í Norður-Evrópu. Það er augljóst að ábyrgðarsvið Finna og Svía hefur víkkað og þurfum við að vera viðbúin að bregðast við öryggisógnum og koma okkur af stað þegar það er þörf á okkur.“

Kristian segir að aðild Finnlands að NATO muni ekki breyta herskyldukröfum þjóðarinnar og að það verði meiri þörf á að senda yfirmenn finnska hersins til að aðstoða herdeildir NATO við ýmis verkefni.

„Við erum ekki að leitast við að skipta út mannafla okkar, þvert á móti mun herinn þurfa á fleiri hermönnum að halda og var aukin þörf fyrir fleiri hermönnum jafnvel áður en við gengum í bandalagið.“

Finnski körfuboltaleikmaðurinn Lauri Markkanen, sem spilar fyrir liðið Utah Jazz í NBA-deildinni, byrjaði að sinna herskyldu sinni í apríl í fyrra.
© epa (epa)

Aðspurður um hlutverk Bandaríkjanna og gagnrýni þeirra um að Evrópuríki ættu að gera meira í varnarmálum segir Kristian að Bandaríkjamenn hafi mikið til síns máls að færa. Hann segist hafa heyrt þessi skilaboð síðan hann byrjaði að vinna sem opinber starfsmaður og að það sé satt að Bandaríkjamenn beri mestan hluta af ábyrgðinni.

„Við uppfyllum nú þegar skilyrði okkar innan NATO og erum staðráðin í að gera það í framtíðinni. Sem framlínuþjóð er mikilvægt fyrir Finna að passa vel upp á þriðju og fimmtu grein bandalagsins. Ekkert NATO-ríki hefur hingað til orðið fyrir árás og við erum staðráðin í að hafa það þannig,“ segir Kristian.