Benedikt Hálfdanarson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics Iceland, segir að mikill vöxtur hafi verið í fiskeldi hér á landi en þar hafi sjókvíaeldi verið mest áberandi.

Hvað landeldi varðar hafi mörg fyrirtæki fjárfest gríðarlega mikið í starfseminni og ætla sér stóra hluti, þó mikil vinna sé fram undan. Að sögn Benedikts þarf mikið „þolinmótt fjármagn“ sem skilar ekki hagnaði nærri því strax.

Borið hefur á gagnrýni á hvaðan fjármagnið kemur í slíka uppbyggingu, hvort það séu erlendir aðilar sem fjármagna verkefnin.

„Maður heyrir þetta sérstaklega í umræðu um fyrirtæki sem hafa fjárfest fyrir vestan, bæði í Arnarlaxi og Arctic Sea Farm, og líka fyrir austan í Ice Fish Farm, þá er verið að bölsótast út í Norðmenn sem hafa komið og fjárfest en þetta hefði aldrei náð því flugi sem það hefur í dag hefði það ekki verið fyrir fjármagn, þekkingu, tengingar og kunnáttu sem kom með erlendum fiskeldismönnum,“ segir Benedikt.

Fólk gleypi ekki við hverju sem er

Til að fylgja eftir hröðum vexti fiskeldisiðnaðarins sé ljóst að fjárfesta þurfi af meiri krafti í starfsfólki og menntun. Það verði áskorun eldisins á Íslandi til næstu ára. Almenningsálitið skipti þá miklu máli.

„Það er mjög mikilvægt að fólk kynni sér málin, hvað fiskeldi gengur út á, en gleypi ekki bara við einhverjum dómsdagstilbúnum málflutningi, sem oft á tíðum er ekki réttur,“ segir hann, en einnig sé ábyrgð fjölmiðla í því samhengi mikil.

„Það er mjög hörð gagnrýni frá ákveðnum hópi fólks og hún fær mjög mikið pláss sem að ósekju er að valda miklu meiri skaða en menn kannski gera sér grein fyrir. Maður fer að heyra svo margt neikvætt um þennan iðnað sem ekki er fótur fyrir og er samt sem áður svo öflugur og góður, það er eiginlega ekki til matvælaframleiðsla sem er hagkvæmari heldur en það að búa til fisk í hafinu, alveg sama hvaða mælikvarðar eru notaðir.“

Ef rétt er haldið á spilunum á komandi árum og áratugum gæti fiskeldið orðið einn af máttarstólpunum í íslensku samfélagi.

„Nú eru þrjár meginstoðir, það eru ferðamálin, sjávarútvegur og stóriðja, en fiskeldi er þegar farið að verða fjórða stoðin og á í rauninni meiri tækifæri til þess að stækka heldur en sjávarútvegur. Það eru ýmsar tölur sem benda til þess að það taki ekki mörg ár fyrir laxeldið að komast fram úr sjávarútvegi, ef að fer fram sem horfir með þessa uppbyggingu og þessa þróun sem menn eru að tala um.“

Nánar er rætt við Benedikt í sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.