Hlutabréfaverð Icelandair féll um 2% í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í dag og stóð í 0,99 krónum á hlut þegar fréttin var skrifuð. Hlutabréfaverð flugfélagsins er nú búið að lækka um meira en 26% í ár og hefur ekki lægra síðan í nóvember 2020.

Gengi hlutabréfa flugfélagsins er þar með komið undir 1,0 krónu útboðsgengið í hlutafjárútboði Icelandair í september 2020 þar sem flugfélagið samþykkti boð upp á 30 milljarða króna. Líkt og þekkt er var mikil þátttaka meðal almennings í umræddu útboði og margfaldaðist fjöldi hluthafa Icelandair að því loknu.

Icelandair birti uppgjör fyrsta ársfjórðungs fyrir rúmri viku. Flugfélagið tapaði yfir 8 milljörðum króna eftir skatta en greindi á sama tíma fyrir því að heildartekjur á fyrsta ársfjórðungi hafa aldrei verið meiri í sögu félagsins.

Tilkynnt var í gær að samn­inga­nefnd­ir Fé­lags flug­mála­starfs­manna rík­is­ins (FFR) og Sam­eyk­is stétt­ar­fé­lags í al­mannaþjón­ustu hefðu ákveðið að boða til yf­ir­vinnu- og þjálf­un­ar­banns ásamt tíma­bundn­um og tíma­sett­um aðgerðum við ör­ygg­is­leit og farþega­flutn­inga fjóra morgna í maí.

Hlutabréfaverð Play hefur einnig lækkað um 1,9% í morgun og stendur gengi félagsins í 4,22 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Gengi hlutabréfa Play er nú 6,2% undir áskriftarverðinu í nýafstaðinni 4,6 milljarða króna hlutafjáraukningu félagsins.