Flugfélagið Play tapaði 21,7 milljónum dala, eða sem nemur tæplega 3 milljörðum króna, á fyrsta ársfjórðungi 2024. Til samanburðar tapaði félagið 17,8 milljónum dala, eða um 2,5 milljörðum króna, á sama tímabili í fyrra. Play birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar.

„Rekstrarniðurstaða fyrsta ársfjórðungs 2024 var í takt við áætlanir okkar. Niðurstaðan er mörkuð af þeim neikvæðu áhrifum sem ónákvæmur fréttaflutningur af jarðhræringum á Reykjanesskaga síðastliðið haust hafði á eftirspurn eftir flugi til Íslands. Frá þessu höfðum við greint og nú liggur niðurstaðan fyrir,“ segir Einar Örn Ólafsson, sem tók nýlega við sem forstjóri Play eftir að hafa starfað sem stjórnarformaður flugfélagsins undanfarin þrjú ár.

Lausafjárstaða félagsins var 17,1 milljón dala, eða um 2,4 milljarðar króna, við lok fyrsta ársfjórðungs. Félagið lauk hins vegar á dögunum 4,6 milljarða króna hlutafjáraukningu og styrkti þar með lausafjárstöðu sína.

Mynd tekin úr fjárfestakynningu Play.

Sölumet á fyrsta ársfjórðungi

Einar Örn segir þó að jákvæð merki séu í flugrekstrinum og sölunni. Eftirspurn hafi tekið „hraustlega við sér“ í janúar og flugfélagið hafi slegið sölumet á fyrsta fjórðungi. Það hafi leitt af sér góða bókunarstöðu fram í tímann.

Tekjur Play á fyrsta ársfjórðungi jukust um 66% á milli ára, úr 33 milljónum dala í 54 milljónir dala, eða sem nemur 7,6 milljörðum króna. Framboð jókst á sama tíma um 63%.

Heildartekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (TRASK) námu 4,2 bandaríkjasentum og stóðu í stað á milli ára. Kostnaður við hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) var 5,9 bandaríkjasent á fyrsta ársfjórðungi 2024, sem er 8% minna en á fyrsta ársfjórðungi 2023. Kostnaður að undanskildu eldsneyti (CASK ex-fuel) var 4,2% minni og stóð í 4,3 bandaríkjasentum við lok ársfjórðungsins.

„Áherslur okkur munu áfram snúast um að sýna ráðdeild í rekstri,“ segir Einar Örn. „Fyrir höndum er sumarvertíðin sem öllu máli skiptir í rekstri flugfélaga og ég hlakka virkilega til þess annasama tíma þar sem við hjá Play munum kappkosta við að veita farþegum okkar framúrskarandi þjónustu.“

Horfur Play fyrir árið 2024 eru óbreyttar frá fyrri spá. Flugfélagið gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) verði í kringum núll og að sjóðstreymi muni batna á milli ára.

Floti Play telur í dag tíu farþegaþotur frá Airbus A320-fjölskyldunni en til samanburðar voru vélarnar átta á fyrsta ársfjórðungi 2023.