Icelandair tapaði 59 milljónum dala, eða sem nemur 8,2 milljörðum króna, eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar tapaði flugfélagið 49 milljónum dala á sama tímabili í fyrra. Icelandair birti ársfjórðungsuppgjör í kvöld.

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi,” segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í afkomutilkynningu.

„Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48% með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands dróst lítið eitt saman.“

Farþegatekjur á fyrsta fjórðungi aldrei meiri

Heildartekjur Icelandair á fyrsta ársfjórðungi námu 259 milljónum dala eða um 35,8 milljörðum króna og jukust um 11% frá sama tímabili árið áður. Þar af voru farþegatekjur 27,5 milljarðar króna sem er met á fyrsta ársfjórðungi hjá félaginu.

„Tekjumyndun var áfram góð og fjórðungurinn var tekjuhæsti fyrsti ársfjórðungur í sögu félagsins. Þrátt fyrir að framboðsaukning á ákveðnum mörkuðum hafi sett þrýsting á fargjöld og sætanýtingu, var áherslan í framboðsaukningu Icelandair hins vegar fyrst og fremst á markaði sem skila félaginu góðum tekjum og arðsemi,” segir Bogi.

Fram kemur að einingakostnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi hafi lækkað um 5% á milli ára sem er rakið til hærra hlutfalls hagkvæmari flugvéla, stærðarhagkvæmni og meiri skilvirkni i rekstrinum.

„Árið 2023 lauk endurreisn Icelandair eftir heimsfaraldurinn og reksturinn skilaði hagnaði á ný. Nú í ár er áhersla okkar fyrst og fremst á aðgerðir til að ná fram aukinni skilvirkni í rekstrinum, lækka kostnað og styrkja tekjumyndun enn frekar. Við höfum þegar gripið til fjölmargra aðgerða, til dæmis einfaldað skipulag félagsins og fækkað stjórnendum og útvistað starfsemi flugeldhússins í Keflavík sem er eitt stærsta framleiðslueldhúss landsins, með um 200 stöðugildi. Þá er vinna hafin að fjölmörgum öðrum verkefnum til að auka skilvirkni.

Með þessar áherslur að leiðarljósi gerum við ráð fyrir auknum hagnaði eftir skatta fyrir árið í heild og erum á réttri leið til að ná langtímamarkmiðum okkar.“

Hálfs milljarðs króna viðsnúningur í fraktstarfseminni

Í tilkynningu Icelandair er vakin athygli á að jákvæður viðsnúningur upp á 535 milljónir króna hafi orðið á fraktstarfsemi flugfélagsins. Fraktstarfsemin skilaði tapi upp á 457 þúsund dali á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 3,6 milljóna dala tap á fyrsta fjórðungi 2023.

„Mikill viðsnúningur hefur orðið í fraktstarfsemi okkar sem skilaði rekstrarhagnaði í fjórðungnum og er útlitið gott fyrir árið í heild. Leiguflugið skilaði áfram góðri afkomu en sú starfsemi skilar mikilvægum tekjum og arðsemi inn í félagið og dregur úr áhrifum árstíðasveiflu með bættri nýtingu flota og áhafna allan ársins hring,” segir Bogi.

Lausafjárstaða Icelandair í lok fyrsta ársfjórðungs nam 57,4 milljörðum króna.