Erlendir fjárfestar hafa fjárfest fyrir 70 milljarða frá árinu 2015 í íslenskum frumkvöðlum samkvæmt nýrri skýrslu frá Framvís, samtökum engla og vísifjárfesta í nýsköpun. Þetta er þriðja skýrsla sem Framvís hafa gefið út um fjárfestingaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja hér á landi.

Framvís safnaði gögnum um fjárfestingar meðlima sinna og var KPMG fengið til að taka saman tölfræði byggða á upplýsingum frá meðlimum.

Í tilkynningu segir að markmið skýrslunnar sé að auka gagnsæi um fjárfestingar engla- og vísisjóða og að sýna umfang fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum á Íslandi. Framvís vill einnig skapa grundvöll fyrir upplýstri og uppbyggilegri umræðu til að breytingar megi verða í átt að auknu jafnrétti í fjárfestingum.

„Efnahagsóvissa sem ríkt hefur á heimsvísu litaði nýsköpunarumhverfið á síðasta ári. Há verðbólga og stýrivaxtahækkanir hafa sett mark sitt á fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja hér á landi og erlendis. Það var lítið um sölur á sprotafyrirtækjum, þótt tveir sögulegir atburðir hafi átt sér stað í íslensku nýsköpunarumhverfi, salan á Kerecis til Coloplast fyrir USD 1.3 ma. og skráning á augnlyfjaþróunarfélaginu Oculis í Nasdaq kauphöllina í New York,“ segir Sigurður Arnljótsson, formaður Framvís og framkvæmdastjóri Brunns Ventures.

Í skýrslunni kemur fram að á árinu 2023 fjárfestu íslenskir vísisjóðir í 33 fyrirtækjum, samanborið við 48 árið áður, sem er 31% fækkun á milli ára. Þá nam heildarfjárfesting 4 milljörðum króna, samanborið við 10 milljarða króna árið áður, sem er 60% lækkun. Englasjóðir fjárfestu í 28 fyrirtækjum fyrir um 600 milljónir króna á síðasta ári.