Á­kvörðun Al­ríkis­við­skipta­stjórnar Banda­ríkjanna (FTC) um að banna svo­kölluð sam­keppnis­á­kvæði (e. non-compete) í ráðningar­samningum hefur hrist veru­lega upp í ráðningar­samningum í fjár­mála­hverfi Banda­ríkjanna, Wall Street.

Financial Timesgreinir frá því fjár­mála­fyrir­tæki séu nú að reyna, með að­stoð lög­manna, að reyna finna leiðir til að gera breytingar á ráðninga­samningum við lykil­starfs­menn svo þeir missi þá ekki til sam­keppnis­aðila.

„Þetta er byrjunin á al­vöru breytingum“

Sam­keppnis­á­kvæði, sem koma í veg fyrir að starfs­menn megi vinna hjá sam­keppnis­aðila í á­kveðinn tíma eftir starfs­lok, hafa lengi verið mikil­vægt tól hjá bönkum, verð­bréfa­miðlurum og vogunar­sjóðum vestan­hafs.

Í gær á­kvað stjórn FTC, með þremur at­kvæðum gegn tveimur, að ó­gilda slíka samninga. Á­kvörðunin gildir fyrir alla nú­verandi samninga sem og alla nýja samninga en breytingin tekur gildi í ágúst­mánuði.

Ráðningar­stofur í Banda­ríkjunum telja að breytingin muni losa veru­lega um hæfi­leika­ríkt fólk í lykil­stöðum en það er vel þekkt að verð­bréfa­miðlarar og banka­starfs­menn séu tregir að segja upp störfum þrátt fyrir að þeir séu ó­á­nægðir í starfi.

„Fyrir­tæki muni bæði vaxa og fara á hausinn út af þessari reglu­breytingu,“ segir Laura Pollock, stofnandi Third Street Partners ráð­gjafar­fyrir­tækis sem sér­hæfir sig í að finna hæfa fjár­festinga­stjóra, í sam­tali við FT. „Þetta er byrjunin á al­vöru breytingum,“ bætir hún við.