Um 3,2 milljóna evra tap, eða sem nemur 478 milljónum króna, varð af rekstri Marels á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar hagnaðist félagið um 9,1 milljón evra, eða um 1,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Marel birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar.

Tekjur Marels á fyrsta fjórðungi drógust saman um 7,8% og námu 413 milljónum evra eða um 61,5 milljörðum króna. EBITDA-afkoma félagsins nam 48,1 milljón evra, eða um 7,2 milljörðum króna, sem samsvarar um 18% lækkun frá sama tímabili í fyrra.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Marels nam 32,8 milljónum evra, eða um 4,9 milljörðum króna. EBIT-framlegð félagsins var því 7,9% á fyrsta fjórðungi samanborið við 9,0% á fyrsta fjórðungi 2023. Marel stefnir á yfir 14% EBIT-framlegð til meðallangs tíma.

Árni: Skýr þörf á frekari uppbyggingu pantanabókkar

Árni Sigurðsson, forstjóri Marels, segir í afkomutilkynningu félagsins að árið hafi farið rólega af stað í samræmi við væntingar. Stjórnendur félagsins sjá þó skýr batamerki í rekstrarumhverfi viðskiptavina og jákvæðari horfum byggt á lækkandi fóðurverði og hækkandi vöruverði.

Til skemmri tíma ríki áframhaldandi óvissa sem endurspeglast í lægri mótteknum pöntunum á fjórðungnum en búist var við. Pantanir á fyrsta fjórðungi námu 393 milljónum evra samanborið við 466 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi 2023.

„Við höfum unnið markvisst að lækkun kostnaðar og gripið til hagræðingaraðgerða og unnið að lækkun fjárbindingar í hreinum veltufjármunum. Það er skýrt að þörf er á frekari uppbyggingu pantanabókar til að bæta framlegð og rekstur.“

Í tilkynningunni kemur fram að félagið geri ráð fyrir bata í mótteknum pöntunum og hækkandi tekjum á seinni árshelmingi.

JBT hyggst leggja fram yfirtökutilboðið í maí

Marel undirritaði í byrjun apríl samkomulag við John Bean Technologies Corporation (JBT) um helstu skilmála í tengslum við fyrirhugað yfirtökutilboð JBT í allt útistandandi hlutafé í Marel. Fyrirhugað verð er 3,60 evrur á hlut.

JBT lagði fram tilboðsyfirlit og skráningarlýsingu til yfirferðar og samþykktar FME um miðjan apríl og hyggst einnig skila inn skráningaryfirlýsingu samkvæmt eyðublaði S-4 til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC) í maí.

Í tilkynningu Marels segir að JBT hyggist leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð að fengnu samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Gert er ráð fyrir að viðskiptin verði frágengin fyrir árslok 2024, að gefnu samþykki frá viðeigandi eftirlitsaðilum, samþykki hluthafa Marel og samþykki hluthafa JBT.