Eimskip hagnaðist um 491 þúsund evrur eða sem nemur 73 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2024. Til samanburðar hagnaðist flutningafélagið um 12,5 milljónir evra, eða um 1,9 milljarða króna á fyrsta fjórðungi 2023. Í uppgjörstilkynningu segist félagið gera ráð fyrir að afkoma á yfirstandandi fjórðungi verði töluvert betri.

Tekjur Eimskips á fyrsta fjórðungi drógust saman um 8,7% milli ára og námu 196 milljónum evra eða um 29 milljörðum króna.

Í afkomutilkynningu félagsins segir að helstu ástæður á bak við lækkun tekna sé lægri Trans-Atlantic verð og magn ásamt minna innflutningsmagni til Íslands og Færeyja. Eins höfðu breyttar markaðsaðstæður á Íslandi, t.d. engin loðnuvertíð, skörp minnkun á innflutningi bíla og aukinn útflutningur á úrgangi til endurvinnslu, neikvæð áhrif.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á fjórðungnum nam 14,2 milljónum evra, eða um 2,1 milljarði króna, sem samsvarar 55% lækkun frá sama tímabili í fyrra. Þá skilaði Eimskip rekstrartapi (EBIT) upp á 893 þúsund evrur, eða um 133 milljónir króna.

Mynd tekin úr fjárfestakynningu Eimskips.

Vilhelm Már: Finnum áfram fyrir almennum kostnaðarhækkunum

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segir að árið hafi farið hægt af stað vegna krefjandi markaðsaðstæðna sem hafi sett svip sinn á afkomu fyrsta ársfjórðungs. Lækkun á EBITDA-afkomu félagsins megi einkum rekja til mun lakari afkomu af rekstri gámasiglingakerfisins.

„Það er hefðbundið að fyrsti ársfjórðungur sé rólegri í gámaflutningum til og frá Íslandi og Færeyjum, en í ár jókst magnið hægar en við bjuggumst við, þegar líða fór á fjórðunginn, sem olli samdrætti í magni á þessum tveimur mikilvægu mörkuðum samanborið við fyrra ár.“

Vilhelm Már segir félagið áfram finna fyrir almennum kostnaðarhækkunum með „talsverðum launahækkunum“ og almennum verðbólguáhrifum á ýmsa rekstrarkostnaðarliði sem sé ein helsta ástæðan fyrir þrýstingi á framlegð úr rekstrinum.

Félagið sé þó byrjað að sjá ávinning af nýlegum siglingarkerfisbreytingum ásamt því að unnið sé að hagræðingaraðgerðum innan samstæðunnar. Meðal þeirra aðgerða felast í viðræðum við helstu birgja til að draga úr kostnaðarþrýstingi.

„Það er álitaefni að af okkar mikla fjölda af öflugum birgjum og samstarfsaðilum telja kostnaðarhækkanir af hálfu opinberra aðila og fyrirtækja í opinberri eigu á Íslandi verulega.“

Vilhelm Már segir annan ársfjórðung hafa byrjað betur en sá fyrsti og reiknar hann með að líðandi ársfjórðungur verði „töluvert betri sá en sá síðasti þegar litið er til afkomu“.