Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) hafa undirritað langtímasamninga sem gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu SA.

SA segir að samningurinn við SSF byggi á Stöðugleikasamningnum sem undirritaður var í mars við meirihluta félaga á almennum vinnumarkaði.

Viðskiptablaðið fjallaði fyrir viku síðan ítarlega um kjaraviðræður SSF og SA sem vísað var til ríkissáttasemjara fyrr í ár. SSF hafa að undanförnu ítrekað lýst yfir óánægju með að kjarasamningar hafa orðið til þess að launahækkanir í fjármálageiranum séu hlutfallslega minna en í öðrum geirum.

„Það er afar ánægjulegt að klára kjarasamninga við starfsmenn fjármálafyrirtækja og þá ekki síst að ná sameiginlegum skilningi á verkefninu framundan. Nú er tíminn til þess að tileinka okkur nýja nálgun til þess að verja lífskjör og skapa skilyrði fyrir fjárfestingu í frekari verðmætasköpun,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA.

„Staðan í viðræðum við FFR og Sameyki þessa dagana er bæði erfið og alvarleg, hún sýnir hvar brugðið getur út af í þeim samningum sem eftir eru. Hversu miklar launahækkanir samræmast verðstöðugleika eru ekki endilega augljósar hagstærðir en eftir mikla vinnu í síðustu kjaralotu náðum við saman um það í tímamótasamningum. Okkur ber saman að standa vörð um þá niðurstöðu, öðruvísi náum við ekki langþráðum stöðugleika.“